22 maí 2014

Fimmti hluti - Sofið undir berum himni í eyðimörkinni

Nóttin í tjaldinu reyndist ekki jafn köld og gert hafði verið ráð fyrir. Mér var frekar heitt og Guðnýju var ekki kalt. Þegar við vorum rétt lögst í bedda (það voru rúm í tjaldinu okkar) heyrðum við skrítið hljóð sem við reyndum að bera kennsl á. Guðný taldi að þetta væru hrotur. Mér þótti það ólíklegt þar sem hópurinn (10 manns) fór allur á sama tíma í tjöldin og það væri líklega heimsmet ef einhver væri sofnaður og byrjaður að hrjóta fimm mínútum eftir að við fórum úr matartjaldinu. Þar sem ég hafði enga betri tillögu að upphruna þessa skringilega hljóðs sætti ég mig við tilgátuna. Nokkar mínútur liðu og þá heyrðist allt í einu þetta skrítna hljóð í ábyggilega 7-8 sekúndur samfleytt. Þá var ljóst að þetta gátu ekki verið hrotur. Ekki nema það væri hvalur að hrjóta eða einhver sem hefur fullkomna þá list að hrjóta samfleytt, þ.e. að hrjóta jafn á innsogi og útblæstri án þess að stoppa á milli. Mætti kalla það einhvers konar jóga-hrotur.

Þetta lítur ekki út fyrir að vera tjald á þessari mynd en er það samt. 

Auðvitað hélt þessi óvissa fyrir mér vöku. Ekki hljóðið sjálft heldur það að vita ekki hvaðan það barst. Að endingu rann þetta upp fyrir mér. Gædarnir sátu úti og voru að reykja Shishu eða vatnspípu. Hljóðið kom þegar reykurinn var soginn gegnum vatnið. Þá má ábyggilega heyra svona hljóð í einhverju lagi með Cypress Hill.

Allavega þá vorum við stödd í Wadi Rum eyðimörkinni sem T.E. Lawrence (eða Arabíu-Lawrence sbr. frábær bíómynd Lawrence of Arabia) fjallaði um í bók sinni Seven Pillars of Wisdom. Eyðimörkin er stór eða um 100 km. frá norðri til suðurs. Þó er ekki nema hluti hennar verndarsvæði eða um 720 ferkílómetrar (ég las einhvern tímann að höfuðborgarsvæðið væri um 1.000 ferkílómetrar en segi það án ábyrgðar). Þarna hefur þjóðflokkur Beduina búið í margar aldir. 

Þegar rætt er um eyðimörk sjá margir fyrir sér sand (eðlilega!) og ekkert annað. Eflaust eru sumar eyðimerku bara sandur en þessi er það ekki því um allt eru klettar, bæði stórir og litlir og jafnvel heilu fjöllin. Hæsti kletturinn er til að mynda 1.840 metrar á hæð (270 metrum lægra en Hvannadalshnjúkur) og mætti því jafnvel kalla fjall frekar en klett.

Guðný í eyðimörkinni

Í grennd við eina uppsprettuna stóð eitt tré sem
ku vera mjög gamalt.

Þarna er að finna þó nokkrar lindir og vinjar og var svæðið mjög mikilvægt þeim sem þar fóru um á öldum áður. Er meðal annars að finna áletranir (e. inscriptions) í klettunum frá því 4.000 árum fyrir krist þar sem ferðalöngum var vísuð leiðin að næstu uppsprettu og hvert væri best að stefna o.s.frv. Mjög áhugavert.

þarna má m.a. sjá áletrun þar sem kona er að fæða barn. 

Allar hafa þessar áletranir þýðingu. Ég man samt ekki hvað þær þýða!

Eftir nóttina í tjaldinu vörðum við deginum á rúnti um eyðimörkina á gömlum Landcruiser jeppa ásamt leiðsögumanninum okkar honum Aíd. Við stoppuðum reglulega í tjöldum hjá heimamönnum sem bjuggu í eyðimörkinni og þáðum te og spjölluðum. Gædinn okkar var nokkuð vinsæll því hann var með Shishuna (vatnspípuna) sína með í för og bauð upp á smók.

Við skoðuðum ýmis flott svæði, uppsprettur, kletta, gil og nutum kyrrðarinnar. Undir lok dags horfðum við á sólsetrið á meðan gædinn kom upp litlum búðum þar sem við elduðum dýrindis máltíð og sváfum svo undir berum himni um nóttina. Það var hreint út sagt ólýsanlegt að liggja þarna í kyrrðinni og sofa undir stjörnubjörtum himni og tunglsljósi. Klárlega hápunktur ferðarinnar. Best að leyfa bara myndunum að tala sínu máli. 

Guðný að labba upp sandbrekku mikla! 

Andri Abdullah virðir fyrir sér útsýnið.Í heimsókn hjá Bedúína sem bauð að sjálfsögðu upp á te.


Þessi var meistari heim að sækja. Hann gaf mér munntóbak sem
hann hafði búið til sjálfur. Ég gaf honum íslenskan rudda í staðinn. 

Guðný prinsessa af Nielsen.
Fyrsti áningarstaður. Þarna elduðum við hádegismatinn.

Toyota er vinsæl í eyðimörkinni.Þarna er parið búið að klifra upp á þennan fína klett. Tunglið sést í baksýn.

Sólsetur í Wadi Rum. Næstum jafn fallegt og sólsetrið í Skjálfandaflóa.

Áningarstaður tvö. Þarna var eldað og gist yfir nótt.


Herbergið okkar!

Guðný að bíða eftir að maturinn verði tilbúinn.

Maturinn klár. Reyndar frábær matur sem við fengum þarna í myrkrinu.

19 maí 2014

Fjórði hluti - Petra og lögreglumenn sem töluðu ekki ensku

Að vana tókum við daginn snemma og lögðum nú leið okkar inn í hina fornu borg Petru. Það er óþarfi að eyða mörgum orðum í að segja frá borginni. Ekki af því borgin er ekki áhugaverð, síður en svo, heldur er þetta upplifun sem verður aldrei lýst almennilega í orðum.
Petra þýðir steinn eða klettur enda er um að ræða heila borg sem er höggvin inn í kletta á stóru svæði. Þarna eru einhver 500 grafhýsi, leikvangur eða leikhús og allskonar minjar og fegurð sem erfitt er að lýsa í orðum.

Eins og Machu Picchu var borgin "týnd" og uppgötvuð á ný árið 1812 af svissneskum landkönnuði. Borgin er, eins og ég hef áður nefnt, eitt af sjö undrum veraldar og algjörlega þess virði að heimsækja.
Til að komast inn í borgina þarf að ganga inn gil sem er
ríflega kílómeter að lengd. Við endann kemur maður
inn á stórt opið svæði þar sem þetta grafhýsi blasir við.

Einn svefnherbergisglugginn.

Það tók mörg hundruð ár að "smíða" borgina.
Hversu mörg hundruð er ekki vitað.

Selfie með hluta af Petru í baksýn.
Á göngu okkar um borgina villtumst við um tíma. Kannski ekki beinlínis villt því við vissum nokkurn veginn hvar við vorum. Meira að við vorum komin út úr helsta svæðinu þar sem túristarnir voru. Þá rákumst við á þetta fína bílskýli. Ótrúlega framsýnir þessir Nabatear (þjóðflokkurinn sem byggði Petru) að gera svona fínt skýli.
Gamall bíll í gamalli borg!
Þegar við höfðum gengið borgina þvera og endilanga var tími kominn á næsta áfangastað sem var Wadi Rum eyðimörkin. Þar ætluðum við að dvelja næstu tvær nætur. Hótelið hafði útvegað okkur leigubílstjóra til að keyra okkur þessa tveggja klukkustunda leið (tími ku vera betri mælikvarði en kílómetrar á þessum slóðum). Leigubílstjórinn var reyndar ekki leigubílstjóri heldur bara bílstjóri. Hann ók gömlum Nizzan Sunny og svo óheppilega vildi til að hann var ekki sérlega vel búinn bílbeltum.

Reyndar var hann ágætlega búinn bílbeltum því það voru alveg jafn mörg belti í þessum bíl og í öðrum bílum sem taka fjóra farþega. Vandamálið var að þessi bíll hafði eingöngu einn "gaur" til að stinga beltinu í og festa það. Því voru góð ráð dýr. Við veltum því fyrir okkur hvort við ættum að taka steinn, skæri, blað upp á hvort okkar fengi að spenna beltið. Endanleg niðurstaða var sú að flækja beltin tvö einhvern veginn saman og vona það besta.

Ferðin gekk áfallalaust fyrir sig þar til við gáfum fram úr manni á einu hestafli. Sá var með hestinn í hvínandi botni svo það spýttist grjót undan hófum hans, sem skullu af miklum krafti á Nizzan Sunny er honum var ekið fram úr á fullri ferð. Bílstjórinn stöðvaði snarlega og hélt reiðilestur yfir knapanum, sem var hress eldri maður. Sá sat á baki og skellihló, sem gerði okkar mann pirraðan. Líklega var hann að hlægja því bíllinn var rispaður og beyglaður allan hringinn og því ómögulegt að átta sig á því hvort grjótið frá hestinum hafi valdið einhverjum skemmdum.

Málið var leyst þannig að við spóluðum af bræði af stað og knapinn hélt áfram að hlægja. Gekk ferðin áfallalaust fyrir sig um stund eða þar til lögreglan stöðvaði okkur við reglubundið eftirlit. Við Guðný sátum eins og hálfvitar með beltin flækt saman í baksætinu þegar lögreglumaðurinn kom að bílnum. Hann taldi vissara að skoða vegabréfin okkar.

Nú hófst áhugaverð atburðarás. Bílstjórinn og lögreglumennirnir rökræddu um stund. Almennt er talið að þeir síðarnefndu hafi gert athugasemd að bílstjórinn væri að keyra farþega gegn gjaldi án þess að hafa tilskilin leyfi (talið er ólíklegt að þeir hafi verið að gera athugasemd við bílbeltin). Lögreglumennirnir áttu eitthvað vantalað við okkur Guðnýju en töluðu ekki ensku. Staðan var því sú að sá eini á svæðinu sem talaði bæði ensku og arabísku var sakborningurinn, bílstjórinn. Að láta sakborning túlka yfirheyrslu yfir vitnum er vond hugmynd. Því var brugðið á það ráð að stöðva næstu bíla þar til næðist í einhvern sem gæti túlkað fyrir lögregluna. Á meðan við biðum kom eldri maður ríðandi fram hjá á úlfalda og glotti til okkar. Ekki var kannað hvort hann talaði ensku enda það talið ólíklegt. Loks kom leigubíll sem ekið var af bílstjóra sem kunni ensku. Yfirheyrslan var í raun bara ein spurning; hvað við hefðum greitt fyrir aksturinn. Á endanum leystist málið og við fengum að halda áfram. Líklega hefur skipt máli að við höfðum greitt sanngjarnt verð (teljum við), þ.e. að bílstjórinn var ekki að svindla á okkur. Mögulega hefur það líka skipt máli að ef við hefðum ekki getað haldið ferðinni áfram með bílstjóranum hefðum við verið stödd út í svokölluðum buska sem hefði ekki verið sniðugt.

Leiðarendi var í tjaldbúðum út í miðri eyðimörkinni (þá vorum við komin úr leigubílnum og í jeppa). Þar höfðum við fengið úthlutað okkar eigin tjaldi. Eins og það getur orðið heitt í eyðimörkinni á daginn getur orðið býsna kalt þar á næturnar. Það stefndi því í kalda nótt. Meira um það næst.

16 maí 2014

Þriðji hluti - Ökuferð, Sögusvið Biblíunnar og mállaus Frakki

Snemma morguns vaknaði Guðný við vekjaraklukkuna og vakti mig. Við vorum reyndar búin að vakna nokkrum sinnum um nóttina við óþekkt hljóð og nokkrum sinnum við þekkt hljóð. Það er nefnilega þannig að upp úr fjögur að morgni byrjar messukall eða moskukall eins og heimamenn kjósa að nefna það. Þá er sönglað hátt og skýrt í hátalarakerfi moskunnar og fólki bent á að tími sé kominn á tilbeiðslu. Við þetta vakna allir. Líka þeir sem ætla ekki í mosku.

Dagskráin þennan dag hljóðaði upp á að fara með leigubíl gamla þjóðleið sem kallast King's highway og liggur gegnum endilanga Jórdaníu frá norðri til suðurs eða öfugt. Ásamt bílstjóranum var með í för þriðji maður. Sá er talinn franskur og heitir líklega Oui (borið fram Víí). Alltént brosti hann og sagði Víí þegar hann var spurður til nafns. Bílstjórinn tjáði okkur þessar upplýsingar. Sagðist hafa farið með hann einan í ferð um norður og austur Jórdaníu tveimur dögum áður. Þetta hefði verið ákveðið vandamál því bílstjóranum þætti gaman að tala og því ómögulegt að vera einn með farþega sem ekki gat hlustað. Í hvert skipti sem þeir stoppuðu til að skoða eitthvað merkilegt stóðu þeir tveir saman og reyktu sígarettur og horfðu þöglir. Frakkinn tók svo nokkrar myndir.
Við Guðný og bílstjórinn kunnum samtals skil á íslensku, þýsku, spænsku, arabísku, skandinavísku, japönsku og ensku. Víí kunni ekkert þessara tungumála og ekkert okkar gat staðfest að hann talaði frönsku.

Ferðin byrjaði reyndar ekki mjög vel. Við höfðum ekki ekið lengi þegar Zeyad bílstjórinn okkar, heimamaður á sextugsaldri, ræskti sig, hóstaði og saug upp í nefið allt í einu svoleiðis að munnurinn á honum fylltist af slími. Guðný sat aftur í og kúgaðist. Þetta reyndist þó bara hafa verið undirbúningur fyrir ferðina því ekki bar aftur á svona tilburðum.
Ferðin var annars mjög fín. Við fórum á topp fjallsins Nebo þar sem Móses hafði áður staðið og séð fyrirheitna landið og síðar dáið að skipan Drottins. Í Biblíunni segir meðal annars í fimmtu Mósebók 32:49-50 þar sem sá uppi sagði við Móses:
„Farðu upp á Abarímfjall, fjallið Nebó í Móabslandi, gegnt Jeríkó, og horfðu yfir Kanaansland sem ég fæ Ísraelsmönnum til eignar. Þú átt að deyja á fjallinu sem þú gengur upp á og safnast til þíns fólks eins og Aron bróðir þinn dó á Hórfjalli og safnaðist til síns fólks, 
Frá fjallinu sáum við yfir til Palestínu (ísrael) og sáum meðal annars borgina Jericho. Ég komst loks að því hvað þetta Jericho var sem sungið var um í samnefndu lagi Prodigy um árið. Einnig skoðuðum við flottan kastala í borginni Karak. Sá ku vera mjög gamall, frá því löngu áður en Móses og aðrir úr Biblíunni átti leið þarna um.
Zeyad, Guðný og Víí virða fyrir sér kastalann úr fjarlægð.

Í kastalanum vorum við svo heppin að þurfa ekki að leita að leiðsögumanni heldur kom heimamaður og elti okkur um kastalann (fór eiginlega á undan en elti þegar við beygðum í "vitlausa" átt). Hann var ekkert sérlega vel að sér í því sem kastalinn hafði að geyma en gat oftast sagt okkur hvað herbergin og gangarnir voru langir. Til dæmis var fangelsið 8 metra langt! Fyrir þessa leiðsögn greiddum við svo þóknun.

Við vorum á heppilegum tíma í kastalanum því það var akkúrat tímabært fyrir bílstjórann að biðja til guðs í staðar-moskunni á meðan við skoðuðum svæðið. Eftir að hafa skoðað kastalann fengum við Guðný okkur að borða og buðum Víí að koma með. Víí sagði hann og kom með. Einhver misskilningur átti sér þó stað þegar við pöntuðum matinn. Matseðillinn var að sjálfsögðu á ensku og okkar maður því í vandræðum. Ég ákvað að panta mér kjúkling og sýndist miðað við látbragð að Frakkinn ætlaði að panta það sama. Þó reyndi Guðný að hefja samræður við hann og spyrja hvort hann væri ekki örugglega grænmetisæta. Víí sagði bara víí og brosti, eins og hann hafði gert alla ferðina.
Þegar maturinn kom á borðið fékk ég kjúklinginn sem ég bað um. Guðný og Frakkinn fengu hins vegar gras á diski. Til að toppa þetta fékk vinurinn diet kók en almennt er talið að hann hafi langað meira í venjulegt kók. Eitthvað segir mér að vinurinn hafi verið pirraður. Nema náttúrlega að hann sé í raun grænmetisæta. Um það er ekki gott að segja.
Ég innan borgarmúra kastalans. Leiðsögumaðurinn bíður
átekta eftir að upplýsa okkur um næstu vegalengdir.

Að öðru leyti var ferðin hin fínasta. Að kvöldi dags renndum við inn í Petru þar sem við áttum pantað hótel. Daginn eftir myndum við skoða hina fornu borg Petru sem er eitt af hinum nýju sjö undrum veraldar sem hlutu þá kosningu á árunum 2000-2007. Hin sex eru Kínamúrinn, Jesú styttan í Rio, Machu Picchu Inkaborgin í Perú, Colosseum hringleikhúsið í Róm, Taj mahal ástarhofið í Indlandi og Chichen Itza Mayaborgin í Mexíkó. Píramídarnir í Egyptalandi eiga svo heiðurssæti á listanum sem eina eftirstandandi undrið af upprunalegu sjö undrum heims.

15 maí 2014

Ferðasaga annar hluti - Jórdanía

Klukkan að verða þrjú að næturlagi lenti vél Lufthansa örugglega á Rafic Hariri flugvellinum í Beirút höfuðborg Líbanon. Í tollinum lenti ég í smá vandræðum þar sem ég hafði ekki sett inn heimilisfang á umsókn mína um vegabréfsáritun. Ég hafði ekki hugmynd um heimilisfang Guðnýjar (ekki hún heldur eða aðrir landsmenn ef út í það er farið sbr. fyrri pistill). Ég var dreginn til hliðar á skrifstofu sem hafði að geyma síma, faxtæki og ljósritunarvél/skanna auk skrifborðs og nokkurra stóla. Þaðan var hringt í Guðnýju og hún beðin um heimilisfang þar sem ég myndi dvelja. Vitanlega var nóg fyrir hana að nefna hótelið því það hefði engin hjálp verið í því að vita götuheitið og númerið. Að loknum þessum detour var ég laus allra mála og fékk inn í landið.
Í þetta skiptið var stoppað stutt í Líbanon því eftir að hafa sofið út héldum við seinni partinn aftur á flugvöllinn. Nú var ferðinni heitið til Amman höfuðborgar Jórdaníu. Þarna á milli er í raun örstutt. Flugið tók um 50 mínútur en hefði líklega ekki þurft að taka nema 20 mínútur. Við fórum nefnilega lengri leiðina.
Flugleiðina má sjá á kortinu. Gula línan sú leið sem við höfðum þegar flogið og sú græna leiðin sem var eftir.
Af hverju þessi leið er flogin hef ég ekki hugmynd um. Ég get ímyndað mér að þetta snúist annars vegar um það að fljúga ekki yfir land Pelestínu þar sem ísraelar hafa komið sér fyrir. Hins vegar að þetta snúist um að safna hæð áður en flogið er yfir Sýrland. Þetta er nú samt bara gisk hjá mér. Ég þyrfti að spyrja einhverja autopilot tölvu út þetta!
Er við lentum á Queen Alia flugvellinum í Amman var orðið áliðið og komið kvöld er við mættum á hótelið. Það gafst því ekki mikill tími til að skoða borgina. Þó fórum við á veitingastað sem er vinsæll meðal heimamanna og fengum þar dýrindis hummus og fleira góðgæti. Einnig sáum við mann með þrjár eiginkonur rífast við mann með tvær eiginkonur (báðir hópar með slatta af börnum) rífast um hvor ætti rétt á að setjast á borðið við hliðina á okkur. Eigandi staðarins kom og leysti úr málinu. Sá með færri eiginkonurnar hafði komið á undan og átti því réttinn. Hinn fór með eiginkonurnar þrjár og börnin á brott. Hann gat líklega ekki hugsað sér að borða þarna eftir þessa niðurlægingu; að tapa fyrir manni með færri eiginkonur.
Veitingastaðurinn fíni. Allt borðað með höndunum að sið heimamanna.
Nú er kominn háttatími því á morgun er ferðinni heitið til Petru eftir Kings highway sem er leið sem menn fóru fyrst löngu áður en Náttfari nam Ísland fyrstur manna (á eftir pöpunum sem eru einhverra hluta vegna aldrei taldir með, en á undan Ingólfi Arnarsyni). Nánar um það í næsta pistli.
Opinberlega heitir landið Jórdanía konungsríki Hasemíta en er í daglegu tali kallað Jórdanía. Landið er svolítið minna en Ísland eða um 89 þúsund ferkílómetrar. Ísland án Vestfjarða er ríflega 94 þúsund ferkílómetrar.

Jórdanía deilir landamærum með Palestínu (ísrael) í vestri, Sýrlandi í norðri, Írak í norðaustri og Sadí Arabíu í austri og suðri. Íbúar landsins eru nærri 8 milljónir.

Góður hluti landsmanna á rætur að rekja til nágrannaríkja þar sem stríð hafa geysað og fólk flúið yfir til friðsæla konungsríkisins. Meðal annars er talið að allt að þriðjungur landsmanna séu Palestínumenn.

07 maí 2014

Ferðasaga fyrsti hluti - Líbanon

Nú er ég staddur í Frankfurt, fjármálahöfuðborg Þýskalands og bíð eftir flugi til Beirút, höfuðborgar Líbanon. Reyndar er nú þegar búinn að bíða í tæplega fimm klukkustundir og enn eru tvær til viðbótar þar til flugvélin tekur á loft.

Næsta stopp er sem fyrr segir Beirút. Þar býr ástkona mín og ætlar að taka á móti mér á flugvellinum þegar ég lendi kl. 2.30 að staðartíma. Það er frábært. Fyrir utan að það verður frábært að hitta hana, eftir nokkra mánaða aðskilnað, þá eru heimamenn víst ekki mjög sleipir í götunöfnum. Þau eru víst ekki notuð sérlega mikið. Þegar maður tekur leigubíl í Beirút er víst betra að þekkja kennileiti nálægt áfangastað frekar en að vita heimilisfangið. Ég get ímyndað mér að þetta sé eins og ef ég bæði leigubílstjóra að skutla mér heim á Bragagötu þá myndi hann ekki rata en ef ég bæði hann að skutla mér á veitingastaðinn Þrjá frakka, sem er skammt undan, væri hann á heimavelli. Það er því ekki víst að ég myndi enda á réttum stað ef ég færi einn í leigubíl og reyndi að koma mér í bæinn.
Eina myndin sem hefur verið tekin á ferðalaginu hingað til.

Fyrir utan að „hanga" í Frankfurt tók ég stuttan rúnt niður í bæ. Að gættri allri nákvæmni þá tók ég lest á Frankfurt main Hbf. sem er Hlemmur og BSÍ borgarinnar. Þar gekk ég einn hring og vonaðist eftir að finna Laugaveg heimamanna og fá mér fínt kaffi og taka því rólega. Þegar ég hafði gengið fram hjá Black hair saloon og Queen of Africa resturant ásamt sirka sjö ólystugum ónefndum stöðum, fór ég aftur á Hovedbanen og fékk mér ostborgara á McDonalds og hélt aftur upp á flugvöll. Á svona dögum væri gott að eiga Platinum kreditkort og fá inn í betristofurnar með fína fólkinu.

Ferðaplanið er nokkurn veginn þannig að á morgun (fimmtudag) höldum við til Jórdaníu. Fyrsti áfangastaður er höfuðborgin Amman þar sem við gistum eina nótt. Því næst höldum við í ferðlag sem verður fjallað um síðar. Ég er gríðarlega spenntur fyrir því að leigja bílaleigubíl og keyra sjálfur. Held að ég geti kennt heimamönnum margt þegar kemur að akstri. Einhverra hluta vegna er betri helmingurinn ekki jafn spenntur fyrir því. Við sjáum hvað setur.