08 mars 2004

hjálp!!!
mig vantar hjálp og það helst í gær..
málið er að núna er ég búinn að vera lasinn meira og minna í vel á aðra viku. gæti verið háloftaveiki þar sem ég er gríðarlega hátt uppi (og meir að segja aðeins hærra uppi en íbúarnir hérna þe í cm) og gæti verið malaría eða gæti verið ferðaveiki sem mér finnst líklegast!!
reyndar var ég fínn í allan gærdag og fékk hvorki ræpu né ældi en þetta virðist allt vera koma aftur..
svona fyrir utan það að ég hef nánast ekkert getað borðað og drukkið (áfengi allavega) allan þennan tíma og búinn að missa nokkur kg í viðbót við það sem ég missti í guatemala, þá er bara svona nokkuð fínt að frétta af mér/okkur.. reyndar þá tóku sig upp gamlir bakverkir sem ég hafði verið laus við í marga mánuði, því ég asnaðist til að fara í þessa líka agalegu hestaferð um daginn..
málið var að ég var uppi í einhverjum dal sem heitir vilca bamba þar sem fólk verður allavega 100 ára því að loftið er svo ferskt og gott þar. mér bauðst að fara í 4 tíma hestaferð upp í fjöllin í nágreninu og auðvitað þáði ég það.. ég bað um að fá laz-y-boy hest sem væri mjúkur eins og ský og fékk þeirra besta hest (bjarna?) en fyrir þrælvanan íslending sem á medalíu fyrir reiðmennsku þá var þetta þvílíkt trippi eða graðhestur (ég veit ekki hvernig maður segir vondur hestur á hesta manna máli) og þó ég hafi skellt mér í 1 1/2 tíma nudd og heitan pott á eftir er ég búinn að vera eins og spýtukall síðan og get varla sofið öðruvísi en standandi út af verkjum í bakinu!!
þannig að niðurstaðan er sú að ég á voðalega bágt og þarf á allri góðri hugsun sem býðst að halda:) reyndar hefur agnes séð svo vel um mig að þetta er ekki jafn slæmt og þetta hefði getað orðið..
annars erum við lítið búin að gera síðustu daga þannig að ég hef engar krassandi ferðasögur fyrir ykkur eins og er..
erum að fara í kvöld í mat til kærasta vinkonu agnesar sem býr í útjaðri borgarinnar og uppi í fjallshlíð, svona frekar afskekkt.. ég gisti heima hjá honum aðra nóttina mína hérna þegar ég var á leiðinni til agnesar. eins og ég sagði er þetta hús uppi í fjallshlíð með risa garði sem er lokaður með hárri girðingu og þannig.. húsið er að hluta úr gleri og eru heilu veggirnir bara risa rúður svo er nottla vatn með gosbrunni og fiskum inni í húsinu og í garðinum er risa vatn með fiskum og helling af fuglum, annað eins hef ég nú bara aldrei séð!!
en svona til að segja loksins frá því að þessa nótt sem ég gisti þarna hélt ég að ég væri að upplifa mitt síðasta!! þjófavarnakerfið fór í gang um miðja nótt og mér leist nú ekki á blikuna en þó þetta gat nú bara verið eitthvað rugl. ég reyndi síðan að halda áfram að sofa og nokkrum mínútum síðar sé ég gaur fyrir utan herbergið mitt (einn veggurinn í herberginu er bara gler með engum gluggatjöldum) labba með lambúshettu og skammbyssu!!! mitt litla íslenska hjarta fór alveg á fullt og mig langaði bara helst að fara að grenja og biðja um mömmu. var einmitt búinn að vera hugsa um það áður en ég sofnaði að þetta væri svo afskekkt að þetta hentaði vel til að ræna. en alla vega þá lá ég eins og klessa og reyndi að láta sem minnst fyrir mér fara og leist ekkert á blikuna þegar gaurinn var eitthvað að kíkja inn um gluggann.. á þessum tímapunkti hefði ég verið tilbúinn til að gefa allar mínar veraldlegar eigur bara fyrir það að fá að lifa aðeins lengur. þegar gaurinn var farinn úr sjónmáli skaust ég fram því ég heyrði einhvern vera tala þar. þá var það pabbi stráksins og hann tjáði mér að það væri allt í fína lagi og þetta væri vörðurinn hans sem væri þarna úti, hann býr víst í einhverju smáhúsi sem er þarna í garðinum, og án spaugs þá hef ég sennilega aldrei á þessum 23 árum verið jafn létt og á þessari stundu!! ég fór aftur inn í rúm og reyndi að sofna sem gekk illa og ekki bætti úr skák að nokkrum mínútum síðar heyrði ég nokkur byssuskot eins og ekkert væri sjálfsagðara klukkan að verða fjögur um nóttina.. mig langaði auðvitað aftur að fara skæla og var ég alveg viss um það að það væru komnir einir 10 vopnaðir gaurar og ætluðu að ræna öllu og drepa okkur (kannski búinn að horfa of mikið á sjónvarp!!!)
en til að gera langa sögu styttri þá lá ég eins og mesta kelling og rifjaði upp allt það góða í lífinu og fór að hugsa um hvað ég væri alveg til í nokkur ár í viðbót.. þó svo að ég yrði myndavélinni og nokkrum dollurum fátækari. og það varð úr að ég vaknaði daginn eftir (held að ég hafi vaknað, veit ekki hvort ég sofnaði) alveg sprell....
ég spurði síðan strákinn út í þetta og hann sagði mér að fyrir ári síðan þegar þau fluttu inn og voru búin að búa þarna í nokkrar vikur og voru ekki komin með þjófavarnakerfi eða girðingu eða vörð eða neitt þá komu 8 vopnaðir gaurar og bundu alla fjölskylduna niður og rændu öllu verðmætu og skildu þau eftir bundin um miðja nótt..........

Engin ummæli:

Skrifa ummæli