16 maí 2004

Ég ætla að birta hérna í heild sinni frétt úr Fréttablaðinu laugardaginn 15/5 2004. Við áttum fulltrúa á staðnum.

Skrílslæti um borð í Norrænu
Um 700 unglingar fengu ódýra ferð sem endaði í allsherjar fylliríi. Einn farþega
segir að fjölskyldur í ferðinni hafi nánast ekkert sofið í tvo daga. Smyril Line
hefur þegar ákveðið að ferðir ungmenna verði með öðrum hætti í framtíðinni.

Allt fór úr böndunum þegar sjö hundruð unglingar þáðu ódýrt tilboð Norrænu um vikuferð
frá Þórshöfn til Hanstholm í Danmörku þann 7. maí. Unglingarnir drukku ótæpilega og starfsmenn skipsins réðu ekki neitt við neitt. Fjölskyldur með börn fengu engan
svefnfrið vegna djöfulgangs, tónlistar og láta segir Sigríður Kristinsdóttir, farþegi með Norrænu. Sigríður segir færesku unglingana sem voru á heimleið frá Danmörku hafa verið með skrílslæti og hamagang. „Við stoppuðum í tvo daga í Færeyjum en við vorum svo uppgefin að við gátum ekkert skoðað. Við sváfum bara,“ segir Sigríður. Hún segir að starfsmenn Norrænu hafi ekki þorað að hafa barinn opinn á laugardagskvöldinu og ekki
hafi verið hægt að dansa. „Um 40 til 50 unglingar sneru öllu við. Þau yfirtóku skipið. Á morgnana voru reyklausu gangarnir á fimmtu, sjöttu og sjöundu hæð fullir af bjórdósum,
sígarettustubbum og glerbrotum.“ Sigríður segir að hluti Íslendinganna hafi óskað eftir því að ræða við Jónas Hallgrímsson, framkvæmdastjóra Norrænu á Seyðisfirði, við komuna í land. Hann hafi hins vegar verið í fríi og sé enn. Samkvæmt færeskum fjölmiðlum var tugmilljóna sala á bar ferjunnar í ferðinni. Stúlka var heppin að falla ekki útbyrðis þegar hún lenti í utanáliggjandi björgunarbáti skipsins. Maður var settur í land í Danmörku með áverka eftir slagsmál og önnur líkamsárás var tilkynnt til lögreglu í Færeyjum. Hún handtók í kjölfarið ungan mann sem hafði gefið samferðarmanni olnbogaskot fyrir að óska þess að hann hefði lægra. Fjölmiðlafulltrúi Smyril Line, eiganda Norrænu, Kári Durhuus, segir fyrirtækið hafa borið mikið traust til unga fólksins þegar ferðin
var auglýst. Þeir hafi hins vegar gert þrjú meginmistök; hleypt of mörgum unglingum undir 18 ára aldri um borð. Þeir hafi síðan skemmt sér með sér eldra fólki. Að lokum hafi drukknu fólki verið hleypt í ferðina. Slík ferð verði aldrei aftur í boði. Durhuus vill biðja þá sem ekki fóru sáttir frá borði að hafa samband við aðalstöðvar Smyril Line.
Þar verði málin leyst.
gag@frettabladid.is


Ljótt er ef satt er segi ég nú bara. Maður þyrfti að heyra í þeim kumpánum þarna í danaveldi og spyrja þá út í þessa siglingu. Eitt veit ég fyrir víst, það er að Gunnþór hringdi í mig þegar þeir voru að leggja í'ann frá Hjaltlandseyjum og þá var hann geysilega bjartsýnn á ferðina og reiknaði með miklu fylleríi. Sem hefur síðan orðið niðurstaðan..

Engin ummæli:

Skrifa ummæli