20 júní 2004

XX látnir og XX slasaðir.....
Það virðist ekkert lát ætla vera á fréttaflutningi af morðum og einhverju þess háttar utan úr heimi. Það getur bara ekki verið hollt fyrir sálina að sjá ekkert nema einhverjar stríðsfréttir þar sem þetta margir voru drepnir, þetta margir slasaðir og svo framvegis. Auðvitað eru þetta fréttir og allt það en svo sorglegt sem það er þá held ég að fólk sé orðið nánast ónæmt fyrir þessum tölum! Þegar maður heyrir margar fréttir á dag um að "þetta margir" hafi dáið í sjálfsmorðsárás þá hlýtur það bara að vera þannig að fólk verður ónæmt fyrir þessu. Þetta er alveg eins með peninga að þegar það er farið að tala um einhverja marga milljarða þá finnst manni kannski ekki allur munur á því hvort KB banki hafi keypt annan banka á 84 milljarða eða 80 milljarða!! Þó munar þarna 4 þúsund milljónum sem er hægt að nota í ýmislegt.
Dæmi um erlendu fyrirsagnirnar á mbl.is þegar ég er að skrifa þetta:
Lögregla segir að óbreyttir borgarar hafi farist í Fallujah
kemur síðan fram í fréttinni að 26 hafi látist í loftárás Bandaríkjamanna í Fallujah
35 taldir hafa farist í Nepal
fréttin segir frá rútuslysi
Öflug sprenging í miðhluta Bagdad
Strætó sprakk, ekki vitað hvort einhverjir létust. Að minnsta kosti 20 bílasprengjur hafa sprungið í þessum mánuði!
Fjórir látnir í átökum í Írak
þetta venjulega bara. Uppreisnarmenn VS USA
Frakkland: 14 slösuðust í sprengingu í íbúðarhúsi
Skorsteinn sprakk en ekki er vitað hvað olli sprengingunni!!!
Sádí-Arabar segja að al-Qaeda hafi orðið fyrir áfalli
Leiðtogi al-Qaeda í Sádí Arabíu var veginn og vona menn að það dragi mátt úr samtökunum þar í landi.
Niðurtalning hafin að sögulegu flugi að mörkum geimsins
Þarna kemur bara frétt sem hefur ekkert með dauðann að gera! Ánægjuleg frétt svona inn á milli.
Fallujah: Bandaríkjamenn segjast hafa gert árás á vígi al-Qaeda
Þetta er sama frétt og hérna ofar. Þessi kom bara fyrr inn þegar hlutirnir voru ennþá óljósir
Írakar segjast ekki enn tilbúnir til þess að gæta Saddams
Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf...
18 fórust í árás í Fallujah í Írak
þetta er semsagt fyrsta fréttin af árásunum í Fallujah

Síðan þegar maður skoðar nánar erlendu fréttirnar þá er voðalega svipað uppi á teningnum. Það er mest fjallað um Írak, USA, Bretland, Ísrael & Palestínu. Það eru reyndar örfá önnur ríki sem komast á blað þarna t.d. Nepal og þá er verið að fjalla um alvarlegt slys sem varð þar og margir létust.
Eina frétt sá ég frá Afríku og fjallaði sú frétt um að 25 þúsund manns hefðu flúið átakasvæði í Kongó og farið yfir til Búrúndí.
Maður spyr sig, er ekkert fréttnæmt nema það sé eitthvað fólk að deyja? Reyndar eru inn á milli annarskonar fréttir t.d. fólk sem var boðað á vitlausum tíma í próf! eða svartbjörn sem fór inn á bráðamóttöku sjúkrahúss en að sjálfsögðu þá eru þær eingöngu frá USA og UK... það kemur vonandi að því að eitthvað skemmtilegt gerist t.d. í Afríku eða S-Ameríku. Þetta eru stórar og fjölmennar heimsálfur og ég bara trúi ekki öðru en að það endi með því að við fáum að sjá einhverjar "skemmtilegar" fréttir þaðan...

Andri has spoken

Engin ummæli:

Skrifa ummæli