28 nóvember 2004

Það hefur ýmislegt á mína daga drifið undanfarið. Reyndar hef ég ekki verið duglegur að tjá mig á blogginu frekar en ég hef verið duglegur einhverstaðar annarstaðar.
Þessi árstími er bara ekki tími dugnaðarins í mínu tilfelli. Veit ekki með ykkur!! Ég bara kem ekki einum einasta hlut í verk. Þetta er alveg óþolandi. Síðan þarf ég að snúsa (blunda eins og stendur alltaf á símanum mínum) svona 6 sinnum áður en ég fæ mig á fætur. Þá er klukkan orðin svo margt að ég hef ekki tíma til að gera neitt nema hunskast í skólann!! Kannast einhver við þetta?? Kannski einhver hafi eitthvað ráð undir rifi til að lauma að mér?

Kennarar eru þessa stundina að kjósa um samningana. Þeir fella ekki samningana því þeir vita að þá fá þeir verri samninga en þessa sem þeir eru að kjósa um núna. Ég hef allan þennan tíma ekki getað myndað mér ákveðna skoðun á því hvort ég standi með kennurum eða ekki. Kannski það sé bara best að vera hlutlaus. Það er svo skrítið með þetta að öllum nema kennurum finnst að kennarar séu að fá allt of mikla hækkun á meðan kennarar vilja varla líta við við þessum smá aurum!! Það er svolítið skrítið.

Sá að einhver skæruliðahópur í Kólumbíu ætlaði að ráða Bush litla af dögum. Þeim varð ekki að ósk sinni því það var einhver asni sem klagaði. Ætli heimurinn yrði betri ef Bush myndi sofna svefninum langa??

Fékk áðan mikilvægt skeyti á msn þar sem ég var varaður við því að fara á folk.is síður. Það kom víst upp bilun á folk.is og flest allar tölvur sem fara inn á folk.is smitast af vírus. Ég trúi þessu ekki frekar en svo mörgu öðru svipuðu sem ég fæ sent. Er búinn að fara á eins margar folk.is síður og ég get og tölvan mín virkar ennþá!!
Var að spá í að senda til baka svohljóðandi;
Varúð
Bilun hefur komið upp á internetinu. Allar síður sem byrja á http://www. eða á http:// gætu innihaldið vírus. Ekki hefur tekist að gera við þessa bilun. Fólk er varað við því að nota internetið á meðan þessu stendur. Stillið á rúv og bíðið eftir tilkynningu um að ástandið hafi lagast.

Kannski myndi hlustun á rúv aukast hjá unga fólkinu, maður veit aldrei. Ef þið eruð með góða vírusvörn þá eigið þið ekki að þurfa að hafa áhyggjur af svona dóti, það er ekkert flóknara en það.

Núna fara prófin að byrja í skólanum. Það hefur aldrei verið uppáhalds tíminn minn, sitja og læra fyrir próf. En síðan koma jólin sem hafa heldur ekki verið minn uppáhalds tími. Síðan byrjar vorönn í skólanum sem mér finnst alltaf aðeins skárri en haustönn. Síðan koma páskar sem eru ívið skárri en jól. Þeir eru reyndar svo snemma þetta árið. Síðan bara áður en maður veit af þá er komið vor. Það finnst mér vera skemmtilegasti tími ársins. Það er ekkert skemmtilegra en að sitja og læra fyrir próf að vori til og hlusta á lóuna kveða burt snjóinn

Þetta er andri sem talar frá Húsavík. Nafla alheimsins

Engin ummæli:

Skrifa ummæli