06 janúar 2005

Andvaka
Það mætti segja að ég hefði fallið á eigin bragði. Málið er að ég snéri sólarhringnum í hálfan hring um jólin, sem þýddi að ég gat ekki sofnað fyrr en undir morgun og vaknaði þar af leiðandi ekki fyrr en undir kvöld. Þetta var orðið ágætt og ákvað ég að gera eitthvað í þessu til að snúa ferlinu við. Því reif ég mig á fætur klukkan 13 í dag (sofnaði kl 7) sem þýddi að ég náði aðeins 6 tímum sem er c.a. 50% af ráðlögðum dagskammti (þegar maður er í fríi allavega). Náði að halda mér vakandi í dag en það var barátta. Eftir fótboltaæfingu í kvöld var ég gríðarlega syfjaður og ákvað bara að fara snemma að sofa og vakna snemma. Ég lagðist til hvílu klukkan 22 og stillti klukkuna á 8 sem hefði þýtt 10 góðir tímar, en allt kom fyrir ekki. Klukkan 1:30 vaknaði Andri útsofinn eins og Þyrnirós hérna um árið og ég sé ekki fram á að ná kríu fyrr en sein og um síðir. Eða er maður kannski að sofna snemma þegar maður sofnar klukkan 7 ? Klukkan er allavega "snemmt".

Yfir í annað.
Horfði einhver á Ísland í Dag á stöð 2 í gær (5. jan)? Þar var verið að ræða um ólöglega dreifingu efnis á netinu. Það er einmitt búið að kæra einhverja nokkra aðila fyrir að dreifa og sækja höfundarréttarvarið efni eða með öðrum orðum bíómyndir, tónlist, tölvuleikir og forrit svona helst. Það verður gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman fyrir dómi.
Þarna voru aðilar bæði frá samtökum höfundarrétthafa og einhver sem titlaði sig sem fjölmiðlafulltrúa Netfrelsis.
Þarna heyrðust rök eins og:
að fólk myndi alveg hiklaust fara í bíó að horfa á mynd sem það væri nýbúið að sækja á netið og horfa á!!
að tónlistar- og kvikmyndaframleiðendur ættu nánast fyrir salti í grautinn sökum mikils þjófnaðar á efni þeirra!!
þeir sem sækja efni á þessa tengipunkta eru síður líklegir til að kaupa efnið
þeir sem sækja efni á þessa tengipunkta eru líklegri til að kaupa efnið

og margt annað gáfulegt og heimskulegt.

Þetta er auðvitað bara á villigötum þessi umræða. Þetta er hugsanlega ólöglegt og allt gott með það. Ef ég næ mér í kvikmynd á netið og finnst hún virkilega góð þá er alveg inn í myndinni að leigja þessa mynd hugsanlega á video/DVD og jafn vel kaupa hana á DVD ef gæði myndarinnar eru það mikil. Núna myndi kannski einhver benda á að ég hefði hugsanlega sleppt því að fara í bíó því ég var búinn að sjá þessa mynd í tölvunni. Ekki endilega. Ég persónulega geri það upp við mig hvort ég hafi áhuga á að sjá hverja mynd fyrir sig og þá hvort þetta sé þannig mynd að maður "verði" að fara í bíó eða hvort hún geti beðið þangað til hún kemur á leiguna. Það eru auðvitað undantekningar en svona er þetta í heildina séð. Þannig að ef mynd er léleg eða bara sæmileg þá fá framleiðendur ekki krónu frá mér. En ef myndin er góð fá þeir eitthvað, ekkert flóknara en það.
Hvað tónlistina varðar þá er þetta ekki alveg eins. Ég get ekki tekið mig sem dæmi því ég hvorki kaup mér tónlist né nenni að sækja hana nema í örfáum undantekningartilfellum. Ég þekki hins vegar fólk sem getur ekki hugsað sér að eiga brenndan geisladisk og ég þekki líka fólk sem getur ekki hugsað sér að borga fyrir tónlist. Munurinn á tónlistinni og kvikmyndunum er helst sá að fyrir utan það að notkunar formið er allt öðruvísi þá hafa tónlistarmenn fleiri leiðir til að hala inn pening sbr tónleikahald.

Mín skoðun er sú að ég hvet alla til að sækja sér tónlist, forrit, kvikmyndir og þætti á netið. Ég skal meir að segja aðstoða vini og kunningja við að koma sér af stað og sýna þeim hvernig þetta fer fram. Rök mín eru þau að peningagræðgin er orðin svo geigvænleg að það hálfa væri nóg. Ef ég vitna í Fréttablaðið í dag þar sem kemur fram að Prince hafi verið með tekjuhæstu tónleikaferðina á síðasta ári en hún skilaði honum 5,4 milljörðum króna eða 87,4 milljónum dollara. Metallica kemur í 4. sæti með 60,4 milljónir dollara.
Í kvikmyndageiranum er þetta ekkert skárra. Tekjuhæstu leikkonurnar eru að fá 20 milljónir dollara fyrir sinn snúði í einni kvikmynd og eru ýmis fríðindi líka. Konurnar eru samt sem áður bara hálfdrættingar á við karlana.
Þetta getur bara ekki talist eðlilegt að fólk sé að fá hátt í 2000 milljónir fyrir að leika í einni bíómynd!! Þetta er eitthvað sem við borgum bara með hærra verði í bíó ekkert flóknara en það. Eitthvað rugl um að dollarinn sé að hækka stenst ekki því ekki lækkar verðið þegar dollarinn lækkar.
Allir að sækja sér afþreyingarefni á netið og það strax í dag. Það væri ekki úr vegi að internetveiturnar hérna á klakanum myndu hætta að níðast á okkur og rukka fyrir erlent niðurhal því þá væri auðveldara að sækja sér einhverja góða bíómynd.

p.s. það verður að hafa fyrirvara á þessum umreiknuðu tölum yfir í íslenskar krónur vegna lágs gengis dollara.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli