23 mars 2005

Hvað er ókeypis?
Ég heyrði viðtal við ákveðna konu í útvarpinu í dag. Þetta var bæjarstórinn í Garðabæ, Ásdís Halla, sem er einmitt sjálfstæðiskona. Þeirra slagorð var einhverntíman "stétt fyrir stétt" þeir eru hættir að nota það því það á ekki við lengur. En aftur að þessu viðtali. Það vær rætt um hitt og þetta og bar á góma nýjasta útspil R-listans í Reykjavík að bjóða frítt leikskólapláss frá og með einhverntíman. Hún kom með þá fleygu setningu að þetta væri bara alls ekki frítt, það væri alltaf einhver sem borgaði þetta og þá væntanlega þeir sem borga útsvarið sitt til borgarinnar. Þetta er alveg laukrétt hjá henni og fær hún rós í gatið fyrir að sjá þetta. Það vill nefnilega þannig til að þegar eitthvað er ókeypis þá er alltaf einhver sem borgar t.d. þegar krakkar fara í bæinn og fá ókeypis nammi á öskudaginn þá eru það væntanlega foreldrarnir (viðskiptavinirnir) sem borga fyrir þetta.
Ástæðan fyrir því að mér þótti þetta skondið og skemmtilegt er sú að þessi sama kona tilheyrir flokki sem er í ríkisstjórn og hjá þessari ríkisstjórn erum við alltaf að fá eitthvað "gefins". Til dæmis er ekki langt síðan við fengum rausnarlega skattalækkun í boði Dabba. Það er bara einn hængur á þessari skattalækkun, það gilda nefnilega sömu lögmál um þau. Það borgar þetta alltaf einhver á endanum. Í þessu tilfelli gat ég ekki betur séð en Dabbi & Dóri væru að færa okkur skattalækkun af beinum sköttum og hækkun á óbeinum sköttum í staðinn. Þeir hækkuðu allavegana skatta á tóbak og áfengi nánast samdægurs og bara sú hækkun skilaði þeim góðum hluta af skattalækuninni beint aftur í kassann. Það var fullt af öðrum hlutum sem hækkuðu á sama tíma eða voru búnir að hækka sbr. bifreiðagjöldin.

Það er sem sagt komið á hreint að þegar við erum að fá eitthvað "gefins", "ókeypis", "frítt" og allt það þá er alltaf einhver sem borgar. Yfirleitt þú sjálf(ur)......

Í tilefni að því að ég bauð fram fría þjónustu í síðasta bloggi hérna á undan, þá er vert að taka það fram að þeir hlutir sem ég þarf til að opna síma eru tölva og internet. Þetta borga ég sjálfur fyrir;)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli