01 maí 2005

Það er að skella á...
...prófavika eða tvær

Það er alltaf leiðinlegt að vera í prófum, ég held að allir geti verið sammála um það. Hins vegar hefur það einn kost, sem er að það er svo gaman þegar prófunum lýkur!
Mig vantar heilar þrjár einingar til að klára stúdentsprófið (vantaði 9 einingar í spænsku um vorið 03) og þær stefni ég á að klára núna í vor sem þýðir að ég mun útskrifast.
Einhvernveginn hef ég komið mér í þá aðstöðu að ég þarf að taka 7 próf núna í vor og þar af tvö samræmd sem er að mínu mati óþolandi. Það var einmitt í fréttum í dag að fólk er almennt ánægðast með Þorgerði Katrínu af meðlimum ríkisstjórnarinnar, mér finnst það skrítið. Ég get alls ekki séð að hún skuli vera gera einhverja góða hluti. Reyndar ætla ég ekki að gerast svo grófur að kenna henni um þessa samræmdu próf sem ég þarf að taka því ég held að það hafi verið Björn "warrior" Bjarnason sem kom þessu á á sínum tíma. Það eina sem Þorgerður hefur gert er að koma með þá hugmynd að stytta framhaldsskólanám niður í 3 ár sem mér finnst alls ekki góð hugmynd. Held það væri miklu nær að gera grunnskólanám svolítið markvissara og einstaklingsmiða það þannig að þeir nemendur sem hafa getu og/eða þroska (menn eru jú misjafnlega þroskaðir þegar þeir byrja og hætta í grunnskóla) taki námið á skemmri tíma, nákvæmlega eins og farið er að gera í meira og meira mæli.

En talandi um þetta samræmdapróf eða þessi réttara sagt, þá var ég að skoða sýnispróf í dag sem sýnir hvernig prófið er uppbyggt. Aðra eins vitleysu hef ég bara ekki séð lengi. Djöfull varð ég brjálaður maður. Það var eitthvað ljótt og leiðinlegt ljóð og spurningar úr ljóðinu sem voru alveg eftir leiðindum þess. Hver er gerandinn í ljóðinu? Hverjar eru andstæðurnar? og eitthvað þar fram eftir götunum. Almennileg ljóð eru bara túlkunaratriði og því ætti ekki að vera spurt svona. Það væri nær að spyrja hvernig túlkar þú ljóðið og gefa rétt fyrir öll svör. Hver man síðan hvað fornyrðislag og ljóðaháttur er? Ég man það allavegana ekki. Lærði þetta hjá Valgerði veturinn 96-97 og síðan eru liðin mörg ár. Menn vissu varla hvað SMS var á þeim tíma og ég átti 286 tölvu og þegar ég fór á netið þá sló ég inn veffangið og fór og ristaði mér brauð á meðan síðan hlóðst inn (ég var samt með vafrarann stilltann þannig að hann hlóð ekki niður myndum).
En svona er þetta, það er víst ekki valkostur í dag hvort maður taki samræmt próf heldur er það skilda. Ég man líka þegar einhver gosi, hvort það var ekki Tómas Ingi, kom í einhvern skóla sem ég var í þá og sagði að þetta yrði val nemenda og það væri ekki fyrr en tvöþúsund og eitthvað sem fólk þyrfti að taka þetta. Gott ef ég hugsaði ekki þá að ég yrði sennilega búinn með háskóla og rúmlega það á þeim tíma!!!!

Svona í lokin þá langar mig að leggja fyrir ykkur kvæði og spyrja síðan:

Júnídagur

Skærgrænt
safaríkt
söngfuglasumar

Stekkur hljóðlaust
úr opnum glugga
stendur grafkyrr
í grasinu
hlustar

læðist af stað
skimar lymskufull
hverfur
í þéttan gróður

birtist á ný
berar tennurnar
lygnir aftur
tígrisaugum
stolt og grimm

gleymdir langir
vetrardagar
kattamatur
innilíf

Tígrisdýr læðist
um skærgrænan
safaríkan
söngfuglaskóginn
Ingibjörg Haraldsdóttir, 2002

1. Hver er gerandinn í ljóðinu?
Köttur, sumar, söngfugl eða tígrisdýr
2. Hvaða andstæður eru mikilvægastar í ljóðinu?
gæludýr/villidýr, inni/úti, sumar/vetur eða söngur/þögn
3. Hvers konar orð eru ríkjandi einkenni í ljóðinu?
atviksorð og sagnorð, lýsingarorð og sagnorð, nafnorð og atviksorð eða nafnorð og forsetningar
4. Ljóðið lýsir
kvíða, rósemi, spennu eða vonbrigðum

Sá/sú sem getur svarað þessum 4 spurningum rétt fær fílakaramellu í verðlaun...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli