05 júní 2005

Þetta er það...
...sem ég er lengi búinn að segja.
Það var grein í fréttablaðinu á laugardag þar sem var fjallað um niðurstöður úr könnun sem nemandi í Háskólanum í Reykjavík gerði varðandi fjármálaskilning ungs fólks. Fjármálalæsi eins og þetta var orðað. Helstu niðurstöður voru þær að 17,5% nemenda í framhaldsskólum hafa yfirdrátt í banka sem er að meðaltali 146 þúsund. 24% erum með mánaðarlegar afborganir af lánum og 13% hafa lent í vanskilum. 72,4% hafa aldrei reynt að fylla út skattaframtal. 63% vita ekki hvað það þýðir að taka gengistryggt bílalán. Niðurlagið í greininni er síðan á þá leið að skólakerfið virðist ekki gera ráð fyrir því að þurfa mennta krakka í þessum efnum.
Þessar tölur koma mér engan veginn á óvart en eru engu að síður að mörgu leiti sláandi. Það vita allir að þeir geta farið í bankann og fengið yfirdrátt, fæstir spá í það hvort vextirnir á yfirdrættinum séu 15% eða 25% sem er mjög nálægt því að vera munurinn á lægstu vöxtum hjá s24 og hinum bönkunum. Það er fullt af fólki sem hefur ekki hugmynd um að það getur ráðið því hvort það fái verðtryggð lán eða ekki í bankanum, reyndar er það skiljanlegt þar sem margir vita ekki hvað felst í muninum og ekki er manni sagt það í bankanum því þeir vilja græða sem mest á manni.
Það eru margir sem dásama greiðsluþjónustu bankanna og finnst hún dásamlega uppfinning (sem hún er að mörgu leiti) það eru samt ekki allir sem átta sig á því að bankinn er ekki að gefa fólki neitt með þessu og það er miklu ódýrara að borga reikningana sína sjálfur. Þegar greiðsluþjónustan er í mínus (eins og hún er stundum þegar það koma stórir reikningar t.d. tryggingar) þá er fólk í besta falli að borga sömu vexti og á venjulegum yfirdrætti oft eru vextirnir hærri.

Það sem ég hef lengi sagt og hefur fundist skrítið er að það skuli ekki vera kennt neitt af þessum toga í framhaldsskólum landsins. Það er næsta víst að allir sem fara í framhaldsskóla eiga eftir að eignast pening eða skulda hann. Allir enda á vinnumarkaðinum, sumir kaupa hús aðrir leigja. Margir kaupa bíl osfrv. Það getur enginn komist hjá því í lífinu að sýsla með peninga en flestir geta komist hjá því að beita fyrir sig eðlisfræði, algebru eða félagsfræðihugtökum.
Afhverju ekki að hafa einn þriggja eininga áfanga þar sem fólki væri kennt að fylla út skattaframtal, eyða í sparnað og það allt?

Maður spyr sig!!!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli