15 september 2005

Íslendingar stoltir af sjálfum sér...
... samkvæmt þessari frétt erum við, ásamt lúxurum og austurum, hvað stoltastir af því að vera þaðan sem við erum (nú geri ég ráð fyrir því að það séu einungis íslendingar sem lesa þetta:).Það þurfti svo sem enga könnun frá gallup til þess að sannfæra mig um að íslendingar væru einstaklega ánægðir með eigið land, í það minnsta út á við.. Ég man eftir mörgum dæmum þar sem vinir og kunningjar eru að mæra vort land fyrir útlendingum. Ekki er ég skömminni skárri þegar ég legg land undir fót. Einhverra hluta vegna þá man maður bara það besta frá heimalandinu og getur ekki annað en upplýst fáfróða útlendinga um hvað allt sé frábært hérna. Til dæmis náttúrufegurðin, hún er einstök. Ekki það að íslendingar séu eitthvað duglegir við að njóta hennar heldur erum við miklu duglegri við að grobba okkur af henni.Þetta er "sjúkdómur" sem heitir " Ísland er best -veikin" og skiptist niður í nokkra flokka eftir því hvar menn eru staddir þegar þeir grobba sig og þar af leiðandi af hverju þeir eru að grobba sig.
Ef það er enginn útlendingur sem maður getur frætt um íslands dásemdir þá þarf maður að ræða þessi mál við einhvern landa sinn. Ef þessi landi manns er t.d. úr Reykjavík er ekkert sjálfsagðara en að tilkynna honum það hversu frábær Húsavík sé og hvað það er alltaf gott veður þar. Án þess að muna t.d. eftir síðast liðnu sumri sem einkenndist af rigningu á norðurlandi og þurrveðri fyrir sunnan. Þetta myndi flokkast sem "heima er best -veikin".
Ef ég myndi hins vegar taka tal við Bjarna Besta eitthvert laugardagskvöldið á Bauknum þá myndi hvorki ganga að segja honum hvað Ísland sé frábært né hversu Húsavík sé frábær staður. Hins vegar myndi hann pottþétt fara að segja mér hvað allt var frábært í gamla daga og sá flokkur heitir "allt var best í gamla daga -veikin".


Kannast ekki allir við þetta?????

Engin ummæli:

Skrifa ummæli