14 október 2005

Davíð Oddson...
... fór mikinn í gær á landsfundi hjá ákveðnum sértrúarsöfnuði hér á landi. Þar fór hann stórum orðum um flesta þá sem aðhyllast ekki hans trú/trúflokk. Reyndar var eini "óvinurinn" sem hann nefndi á nafn Samfylkingin. Hann sagði að formaður og sumir þingmenn Samfylkingarinnar:
"virðast naumast líta á Samfylkinguna sem flokk en fremur sem tiltölulega léttbægt dótturfélag auðhrings". Hann sagði einnig að "Það skipti sig engu máli nú fremur en áður hverjir væru í forsvari fyrir auðhringana sem vildu yfir öllu gína. Hann væri andvígur því að heilbrigð samkeppni snerist upp í andhverfu sína vegna þess að hann tryði því og hefði ávalt trúað því að heilbrigð samkeppni væri góð fyrir fólkið í landinu".

Einnig sagði Davíð eitthvað á þá leið að það hefði ekki skipt hann nokkru máli árið 1978 frekar en nú, hverjir stjórni auðhringjunum, það verði að berjast gegn þeim.

Til að byrja með þá langar mig að lýsa yfir þeirri skoðun minni að Baugur er á sinn hátt auðhringur. Þeir hafa markaðsráðandi stöðu á sviði matvöruverslana svo dæmi sé tekið.
Hins vegar þá langar mig að benda á nokkur stórfyrirtæki sem hafa í gegnum tíðina ekki stundað heilbrigða samkeppni án þess að Davíð hafi nokkuð við því að segja. Eimskip var með gríðarlega einokunarstöðu lengi. Hluti af kolkrabbanum. Flugleiðir voru lengi eina flugfélagið sem flaug áætlunarflug til og frá Íslandi, einnig eina flugfélagið sem flaug innanlands. Hluti af kolkrabbanum. Sjóvá, Vís og TM sem hafa í rólegheitunum skipt á milli sín viðskiptavinum án nokkurrar samkeppni. Það er jú einhver smá verðmunur á milli en engu að síður sameinast þau sem einn maður um verðhækkanir sem skipta tugum prósenta. Esso, Olís og Shell það þarf ekki að segja mörg orð um þessi félög. Það eru til sannanir fyrir því að þau stunduðu verðsamráð.
Þetta er svona smá dæmi um fyrirtæki sem hafa verið starfandi á þessu tímabili sem Davíð hefur verið á móti auðhringjum, sem koma í veg fyrir heilbrigða samkeppni.

Hvað gerði Davíð þegar það sannaðist verðsamráð á olíufélögin? Hann sagði eitthvað á þá leið: "ljótt er ef satt er". Punktur. Hann hafði ekki nokkurn áhuga á þessu máli, þó var það vitað mál í mörg ár að þessi félög væru að standa í þessu braski, menn vissu kannski ekki að þetta væri jafn umfangsmikið og kom síðar í ljós en samt.

Þetta er bara brot af því sem mig langaði að koma að hérna. Ég nenni ekki að skrifa meira í bili því ég verð bara pirraður af þessu.

Að lokum þá langar mig að spyrja hver er munurinn á þessum fyrirtækjum sem ég taldi upp annarsvegar og Baugi hins vegar?
Jú munurinn er sá að öll þessi fyrirtæki borga í digra sjóði Davíðs-sértrúarsafnaðarins en Baugur borgar annað hvort ekkert eða þá of lítið og er þar af leiðandi Dabba ekki þóknandi.

Það væri gaman að fá að vita hvað ykkur finnst um þetta mál. Þá sérstaklega Ævar Þór sem er strangtrúaður Davíðs maður og Birkir Vagn sem er upprennandi stjórnmálafræðingur og ætti því að láta sér þetta mál varða.

p.s. ég sá einhvern tíman kort yfir kolkrabbann, þ.e. hvernig hann teygði anga sína út frá Eimskipum. Ef einhver man eftir að hafa séð þetta kort þá endilega látið mig vita. Annars finnst mér bara eins og mig hafi dreymt þetta:)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli