21 október 2005

Ég þoli ekki...
...Formlegt.

Flestir svona formlegir hlutir fara í taugarnar á mér. Hvað er t.d. málið með að Ólafur Ragnar sé að fara í opinbera heimsókn í Hafnarfjörð? Hann býr nánast í Hafnafirði. Þarf kannski að labba yfir eina götu og þá er hann kominn til Hafnafjarðar. En nei, hann er að fara í "Heimsókn í Hafnarfjörð". Allt voðalega formlegt og fínt.

Svo er annað. Hvað er málið með sönnunarbyrgði í dómsmálum? Núna var ég að lesa um mann sem var tekinn með rúmlega 100 grömm af hassi, 2,3 grömm af amfetamíni og 400 þúsund krónur í peningum. Hann fékk mánuð í skilorðsbundnu fangelsi (sem sagt laus allra mála) og rökin fyrir því voru þau að hann sagði efnin vera til eigin nota, ekki ætluð til sölu. Einnig var ekki hægt að gera peningana upptæka því ekki þótti sannað að hann hefði aflað þeirra með fíkniefnasölu.

Auðvitað er það gott mál að menn fái að njóta vafans. Menn eru jú saklausir uns sekt er sönnuð. En það má nú á milli vera. Þetta minnir mig óneitanlega á Kio Alexander Briggs sem kom með þúsundir e-taflna til landsins hérna um árið. Hann var sýknaður því það þótti ekki sannað að hann hafi vitað af þessum fíkniefnum í farangri sínum. Hvernig er þá hægt að dæma menn fyrir fíkniefnasmygl, svo framarlega sem þeir játa ekki á sig brotið? Ég myndi halda að það væri erfitt.
Eins með Litháann sem var tekinn á Leifsstöð um daginn með brennisteinssýru í áfengisflöskum. Hann var sýknaður meðal annars vegna þess að ekki þótti sannað að hann hafi vitað hvað væri í flöskunum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli