14 desember 2005

Lærðu að efast...
...það er ekkert eins og það virðist vera.

Þetta gæti verið titill á bók sem ég gæti hugsanlega gefið út í framtíðinni.
Málið er nefnilega að lífið er bara eins og að vera í leikhúsi. Sumir sitja bara í sínu sæti, sáttir við lífið, alveg sama um hvað gerist bak við tjöldin. Alveg sama um hverjir eru á bakvið persónurnar sem standa uppi á sviði. Svo eru aðrir sem vilja vita hvað býr að baki. Hvað er í gangi baksviðs. Hver stjórnar leiksýningunni. Er það leikstjórinn eða er einhver annar sem stýrir leikritinu úr leyni?
Ég persónulega hef minni áhuga á leiksýningunni og meiri áhuga á baksviðinu og því sem fer fram þar.
Í bókinni myndi ég einnig benda fólki á allskonar staðreyndir, sama hvort það séu almennar staðreyndir eða bara mínar staðreyndir. Til dæmis þá eru litirnir ekkert eins á litinn hjá okkur öllum. Þá er ég ekki að tala um litblint fólk. Heldur er ég að segja að litir eru bara skynjun og það er ekkert sem segir að ég skynji rauðan lit eins og þú eða einhver annar. Kannski sé ég rauðan lit eins og þú sérð bláan, hins vegar köllum við þetta báðir rautt af því að okkur var báðum kennt það í æsku að þessi tiltekni litur héti rauður, ekki að hann væri rauður. Þetta gæti til dæmis verið ástæða þess að við eigum mismunandi uppáhalds liti og einnig að við skynjum listaverk mismunandi. Kannski finnst einhverjum "Lífsómurinn" eftir Munch vera ljótt og öðrum flott. Kannski skynja þeir ekki sömu liti og sjá þar af leiðandi ekki saman hlutinn.


Hvers vegna, hvenær, hvernig, hvar og hvað?...
...gæti önnur bók heitið.
Það væru meira svona pælingar af hverju hitt og af hverju þetta.

Svona sem dæmi um eitthvað sem ég skil ekki. Þegar menn eru að mála strik á bílastæði þá geta þeir ekki aukið plássið með því að gera fleiri línur. Dæmi:
Húsvörður í íbúðablokk hringir í málara og spyr "hvað kostar að láta merkja hjá okkur bílastæðið?"
Málarinn spyr þá á móti "hvað er þetta stórt stæði?"
Þá segir húsvörðurinn "þetta eru stæði fyrir 40 bíla"
Málarinn "ég get gert þetta fyrir 30 þúsund kall. Reyndar get ég gert stæði fyrir 50 bíla fyrir 35 þúsund"
"Já það er sniðugt. Höfum þetta bara þannig" og málið er dautt.

Hvað græða menn á þessu? Ekki neitt! Hver kannast ekki við þetta, að leggja í stæði þar sem bilið á milli línanna er miðað við Austin Mini?

Svo langar mig líka að vita hvað snærisspotti er langur. Getur einhver sagt mér hvað spotti er langur?

Hvort er auðveldara að gera Úlfalda úr Mýflugu eða Mýflugu úr Úlfalda?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli