08 desember 2005

Nú er ég hættur...
...að skilja nokkurn skapaðan hlut.

Fyrirsögn á mbl.is svohljóðandi:
"Sjálfsvígssprengjumaður á reiðhjóli varð sex að bana í Bangladesh"
Ég skil alveg fyrirsögnina og það sem verra er að svipaðar fyrirsagnir eru orðnar svo algengar að maður er hættur að skynja hvað liggur að baki (sem er mjög sorglegt).
Hins vegar las ég greinina og þá kom á daginn að sjálfsvígssprengjumaður hafði hjólað inn í hóp fólks og sprengt sig í loft upp. Hann náði að drepa sex menn ásamt sjálfum sér og síðan kemur: "Tugir slösuðust, þ.á m. annar meintur tilræðismaður sem lögregla telur að hafi mistekist að sprengja sprengju er hann hafði á sér."
Hvað er eiginlega í gangi? Er þetta orðið svona algengt að sjálfsmorðssprengjumenn eru farnir að sprengja hvorn annan fyrir tilviljun? Ég skil þetta ekki.

Annað sem ég átti eftir að koma inn á.
Frétt frá Akureyri fyrir skemmstu um að 12 ára gamall drengur hafi neytt kannabis efna og læknadóps. Maður skilur bara ekki svona. Þegar ég var tólf ára var aðal sportið að kasta snjókúlum í bíla, hoppa fram af húsþökum og svo í lok dags að spila Mario Bros. Gott ef við félagarnir vorum ekki 12-13 ára þegar við stálumst á pönk tónleika í bíóinu forðum daga. Vorum örugglega hátt í 10 saman í snjógöllum að hoppa fram af húsþökum. Áttum allt í einu leið fram hjá bíóinu og þar stóðu yfir þessir fínu tónleikar. Við stálumst inn, settumst í öftustu röð og hlýddum á Rotþrónna, Ræsið og ég veit ekki hvað þessar hljómsveitir hétu.
Djöfull held ég að við höfum verið asnalegir þarna aftast í snjógöllunum:)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli