13 janúar 2006

Af hverju múgæsingur?

Ég hef verið spurður að því hvernig í ósköpunum ég geti staðið með DV og gefið það út að ég ætli ekki að skrifa á þessa frægu undirskriftalista. Ég stend ekki með DV frekar en einhverjum öðrum. Bara þannig að það sé á hreinu. Ég hins vegar er búinn að velta þessu máli mikið fyrir mér, búinn að skoða það frá mörgum hliðum og komast að mörgum niðurstöðum.

DV hefur alla tíð frá því að ég man eftir mér verið umdeilt blað. Það eru alveg ótrúlega margir sem hata blaðið og þá sem að því koma. Sumir hafa “lent í DV” og hata það þess vegna. Aðrir hafa einfaldlega óbeit á þessari fréttamennsku sem viðgengst þar. Það er annað sem þessir fyrrgreindu hópar eiga sameiginlegt. Það er skoðun þeirra á því að DV hafi ALDREI gert neitt gott, aldrei birt neina almennilega frétt eða m.ö.o. blaðið gengur eingöngu út á að skemma mannorð fólks og eyðileggja líf þess. Þessu er ég ekki sammála. Mér finnst að stundum hafi DV gert góða hluti eins og þeir hafa stundum gert slæma hluti. Ég nenni ekki að fara að nefna einhver dæmi, fólk getur bara flett blaðinu aftur í tímann og reynt að vera svolítið hlutlaust í smá stund.

Hvað múgæsinginn varðar. Ég hef lesið umfjöllun, skrif, rifrildi, rifist sjálfur um “DV málið” eins og ég kýs að kalla það. Ég las grein Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, þar sem hann lýsti því yfir að ritstjórar DV væru morðingjar. Ég las pistil á djöflaeyjunni, pistil Össurar, Björns Inga og Björns Bjarna. Pistil á andríki.is, sus.is, svo dæmi sé tekið.
Allir þessir pistlar eiga það sameiginlegt að vilja sjá breytingar á stefnu DV. Því er ég sammála. Sumir kalla ritsjórana morðingja og benda síðan á, nánast í beinu framhaldi, að enginn sé sekur uns sekt er sönnuð. Það er alveg hárrétt svo langt sem það nær. Gísli (sem DV fjallaði um) er saklaus og sekt hans verður aldrei sönnuð/afsönnuð því hann er látinn. Ritstjórar DV hafa ekki verið kærðir, hvað þá dæmdir fyrir þessa umfjöllun og þar af leiðandi eru þeir ekki morðingjar.

Það má benda á að Saddam Hussein hefur verið kallaður fjöldamorðingi, harðstjóri og hitt og þetta. Hann situr í fangelsi í Írak og bíður þess að verða dæmdur/sýknaður. Hann er sem sagt bara venjulegur maður, fyrrverandi forseti, fyrrverandi bandamaður Bandaríkjanna. Hugsanlega verður hann einn daginn morðingi, en í dag er hann það ekki. Því sekt hefur ekki verið sönnuð í dómssölum.
Hitler lifði því miður ekki nógu lengi til þess að hægt væri að dæma í hans málum, það gerir hann ekki að saklausum manni eða hvað?
Bara þannig að það sé á 100% tæru þá er ég ALLS EKKI að líkja Gísla heitnum við fyrrgreinda menn. Ég er einungis að benda á tvískinnunginn í þessu orðalagi “saklaus uns sekt er sönnuð.
Það er bara þannig að sönnuð sekt getur verið mjög svo teygjanlegt orðalag. Í sumum dómsmálum, sérstaklega þeim sem fjalla um kynferðisofbeldi, stendur orð gegn orði. Auðvitað er það ekki alltaf, sem betur fer. En stundum er það þannig.
Ekkert DNA, engar haldbærar sannanir, einungis vitnisburður einnar manneskju gegn vitnisburði annarrar manneskju. Dómararnir hafa þrjá möguleika. Að sýkna/sakfella, þar sem vitnisburður annarrar manneskjunnar þykir trúverðugri en vitnisburður hinnar. Síðasti möguleikinn er að vísa málinu frá þar sem ómögulegt getur reynst að skera úr um hvor vitnisburðurinn er réttur og hvor er rangur.
Dómskerfið er ekki fullkomið, því miður. Stundum eru menn dæmdir saklausir og stundum eru menn sýknaðir þó sekir séu.
Að mínu mati er ekki hægt að segja “saklaus uns sekt er sönnuð” eins og það sé heilagur sannleikur. Hvert mál er sérstakt og því þarf að vega og meta þessa setningu og þessi orð í beinu samhengi við hvert mál fyrir sig.

Hvað er líka málið með að skora á auglýsendur að hætta að auglýsa í DV og hinir og þessir hætti að selja DV? Er ekki málið að fólk hætti að kaupa DV?
Jóhannes í Bónus orðaði það þannig að “kúnninn drepur vöruna”. Það er akkúrat málið. Ég persónulega vil geta valið hvað ég kaupi. Ég vil sleppa því að kaupa DV til þess að mótmæla ritstefnu blaðsins eða þá að ég vil kaupa blaðið til að lýsa velþóknun minni á blaðinu. Mér finnst að það eigi að vera neytandinn sem hefur valið, ekki að neyslunni sé stýrt af kaupmönnum. Ef neytendur hætt að kaupa DV, hætta auglýsendur sjálfkrafa að auglýsa í blaðinu. Þá er tvennt í stöðunni. Annað hvort að leggja blaðið niður/fara á hausinn eða þá að breyta stefnu blaðsins.

Að lokum.
Mér persónulega finnst margt í fréttaflutningi DV vera í stakasta lagi. Ýmislegt er vafasamt og ætti tæplega heima þarna. Það sem ég myndi helst af öllu vilja breyta við blaðið er það að eins og fólk veit eru þeir oft að dansa eftir mjög tæpri línu (sem þeir lögðu einmitt sjálfir!) og mistökin eru gríðarlega dýr (t.d. með körfuboltagaurinn af Suðurnesjunum sem var sakaður um kynferðis afbrot gegn ungum stúlkum og var síðan blá saklaus. Þær höfðu bara skáldað þetta upp). Ég myndi vilja sjá DV bíða lengur með að birta “fréttir” sem þessa (einhenti kennarinn). Ef þeir hefðu beðið í nokkra mánuði með þessa “frétt”, málið hefði verið komið fyrir dómstóla, og jafnvel búið að dæma í því, þá hefði verið í lagi að birta “fréttina”. Það er heldur ekki eins og það séu aðrir fjölmiðlar í samkeppni við DV um svona fréttir, þannig að þessi nákvæmlega sama “frétt” með nákvæmlega sömu fyrirsögn hefði verið alveg jafn sláandi fyrir almenning í júlí eins og hún var núna í janúar.

Það er líka mjög góður punktur sem Maggi Halldórs kom með í skoðunum í síðasta pistli. Þar segir hann orðrétt: “Enn svo er annar gallinn sá að enginn virtur blaðamaður hefur viljað starfa á DV. Það hefur því verið ráðið ómenntað fólk sem hefur því miður ekki alltaf nógu mikið vald á því að meta málsatvik.
Það er einfaldlega staðreynd, að fólkið sem hefur fengist til starfa á DV hefur oft ekki tekist að skilja mál og greina frá þeim rétt. Og þegar upp er staðið er það það atriði sem veldur reiði hjá fólki. Grunnhyggni og ekki nógu vandaður frágangur. Svo er það hræðslan við að standa sig ekki. Reyna að flassa nöfnum og myndum sem mest. Þó það geri ekkert nema ógagn fyrir fréttina.

Það hlýtur að vera mjög mikið áhyggjuefni þegar blaðið fær ekki til sín neina alvöru blaðamenn þ.e.a.s. menn með reynslu og virðingu í geiranum. Það er ekkert sem segir að sumir þessara manna séu ekki gott efni og eigi ekki eftir að verða góðir blaðamenn. Það hlýtur hins vegar að vera mikilvægt að hafa góða lærimeistara í svona fagi. Þeir eru greinilega ekki til staðar hjá DV.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli