16 janúar 2006

Þá er DV-málið búið...
...og allir búnir að gleyma því (eða svo gott sem)

Ég ætla nú ekki að vera svo kræfur að segja að þetta mál sé búið. En þetta er svona eins og blaðra sem lak. Það er smá loft eftir en það dugar bara í nokkra daga í viðbót. Þá verða allir farnir að hugsa um eitthvað annað.

Ég var á leiðinni heim úr skólanum, skömmu fyrir hádegi í dag. Svo sem ekki merkilegt nema hvað þegar ég kem að gatnamótum Kringlumýrar- og Miklubrautar, sem eru nota bene umferðamestu gatnamót landsins, þá sé ég hvar tveir sjúkrabílar koma keyrandi í neyðarakstri úr gagnstæðri átt (ég var sem sagt á Miklubraut). Þeir eru með sírenur og ljós og allan pakkann. Þegar þeir koma að gatnamótunum er rautt ljós á þá og grænt á þá sem voru að keyra áfram á Kringlumýrabraut. Það virtist ekki skipta fólk neinu máli þó að það væru tveir sjúkrabílar að reyna að komast yfir. Þeir voru á rauðu og gátu bara beðið. Með öðrum orðum þá datt engum í hug að stoppa í eins og 15 sek og hleypa bílunum áfram.
Ég varð alveg óskaplega pirraður þegar ég sá þetta. Þó ég sé nú ekki öfgafullur maður fannst mér þetta réttlæta dauðarefsingu svona rétt á meðan ég var sem reiðastur yfir þessu. Núna finnst mér það frekar harður dómur!
Mér finnst þetta bara svo lýsandi fyrir Íslensku þjóðina eins og hún er að þróast. Það eru allir svo uppteknir og að flýta sér að það er bara ekki möguleiki á að gefa einhverja sénsa. Það tapast nokkrar sekúndur og það er ekkert allt of mikið af þeim (86.400 í sólarhring) þegar maður þarf að borga af öllu "lífsgæðakapphlaupsdótinu" sem maður er búinn að kaupa.

Ég spurði mig líka einnar spurningar í dag. Ég geri það stundum. Oftast er það af því að ég veit ekki svarið. Stundum kemst ég að svarinu með því að spyrja mig sjálfan og velta þessu svolítið fyrir mér. Mæli með því.
Spurningin var svo hljóðandi: "Hvenær er maður íþróttamaður?"
Ég man ekkert af hverju ég fór að velta þessu fyrir mér það er líka bara auka atriði. Aðal atriðið er hvenær? Það er nefnilega til fólk sem kallar sig íþróttafólk vegna þess að það spilar stundum spil (Bridge) eða færir kalla eftir einhverju borði (skák). Mér persónulega finnst það ekki vera íþróttir.
Samkvæmt orðabókinni minni er íþróttamaður einhver sem stundar íþróttir. Mjög stutt og laggott. En það er eins með þessa spurningu og margar aðrar, þegar maður fær svar við einni þá koma bara aðrar í staðinn. Í staðinn kom "hvað er íþrótt?"
Aftur fletti ég í orðabókinni minni og svarið var:

1)leikni, fimi, snilld, list
2)kerfisbundnar æfingar til að þjálfa líkamann (oft til að ná e-m tilsettum árangri, setja met o.þ.h.)

Þessar útskýringar þrengja hringinn ekki baun.
Snilld? Það er snilld að detta í'ða, eða það finnst sumum. Það er ekki íþrótt. Íþrótt getur verið snilld en það sem er snilld þarf ekki að vera íþrótt. Það sama gildir um list! Íþróttir geta verið list en list þarf ekki að vera íþrótt.
Ég hef eiginlega ekki komist að neinni niðurstöðu nema þeirri að fótbolti er íþróttin, bridge og skák eru ekki íþróttir frekar en stærðfræði.

Later

Engin ummæli:

Skrifa ummæli