22 janúar 2006

Það er ýmislegt...
...sem mér liggur á hjarta.

Síðustu daga hefur hitt og þetta skotið upp í kollinum á mér eða ég hef séð/lesið sem mig langar að skrifa um hérna. Ég hef bara ekki komið því í verk fyrr en nú.

Það fyrsta sem ég man eftir var innsend grein í Morgunblaðinu um daginn (þriðjudaginn ef ég man rétt). Þar var einhver prestur að tjá sig um hjónaband samkynhneigðra. Honum fannst það svo sem ekki vera neitt tiltöku mál þannig séð og var alveg tilbúinn til að bekenna það. Hins vegar var hann ekki alveg jafn tilbúinn til að bekenna að hjónaband væri rétta orðið yfir vígslu tveggja karlmanna eða tveggja kvenmanna. Hann var hins vegar með lausn á þessu vandamáli. Hann vildi einfaldlega kalla þetta hommaband og lespíuband. Ekkert flóknara en það!
Ég sé alveg fyrir mér eitthvað sætt par í fallegu kirkjunni á Húsavík, Sighvatur stýrir athöfninni glæsilega eins og honum einum er lagt. Að lokum segir hann "hér með lýsi ég ykkur homma."

Svo var annað sem ég sá um daginn og fór óskaplega í taugarnar á mér. Held reyndar að þetta hafi bara verið gert til þess en það er sama. Það virkaði alla vega.
Eitthvað nöldur sambandi við "náttúrulaus" tónleikana sem voru um daginn. Fór einmitt á þá og þeir voru bara býsna skemmtilegir og áhugaverðir.
Þetta nöldur var eitthvað á þá leið að fyrst allt þetta fólk er á móti rafmagni af hverju voru þá ekki tónleikarnir órafmagnaðir? Þetta finnst mér óskaplega heimskulegt og leiðinlegt. Sérstaklega finnst mér þó leiðinlegt að hafa látið þetta pirra mig. En svona er þetta bara.
Þetta er svona svipað og þetta með Vinstri Græna. "Þeir vilja nú bara að allir týni fjallagras" - rökin. Óskaplega hefur fólk lítið hugmyndaflug þegar það þarf að beita svona rökum.
Jæja nenni ekki að nöldra meira um það.

Þá er komið að aðal málinu. Eitthvað sem gerði mig alveg skarpvondan (foxillan fyrir ykkur sem skiljið þetta ekki). Það var grein um útgjöld ríkisins til hinna ýmsu málaflokka.
Ríkið eyðir alveg fullt af peningum á hverju ári. Sumum peningunum er eytt í þarfa hluti eins og þingmenn, ráðherra, bílstjóra fyrir ráðherrana, einkennis klæðnaði fyrir bílstjórana, bíla fyrir bílstjórana til að keyra ráðherrana í. Hinar og þessar nefndir sem eru allt frá því að vera virkar og bráðnauðsynlegar yfir í að vera lítt virkar og að margra mati ónauðsynlegar.
Svo er sumum peningunum eytt í alveg ótrúlegustu hluti. Ég ætla að telja upp nokkra málaflokka sem ríkið greiðir/niðurgreiðir: (tölurnar eru fyrir árið 2004 nema annað sé tekið fram)

*9,5 milljarðar í rekstur framhaldsskóla eða 33 þús. krónur á hvern landsmann. Kostnaður á hvern nemanda 600 þús. eða um 2,4 mills fyrir fjögurra ára stúdentspróf.

*8,5 milljarðar í landbúnaðarmál (áætlað árið 2006) eða 28 þús á hvern landsmann.

*2.400 kr á hvern sýningargest á ballettsýningu.

*9.400 kr fyrir hvern greiddan miða á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands (Hver miði kostar 11 þúsund, gestir greiða 1600 kr)

*6.600 kr á hvern sýningargest í Þjóðleikhúsinu (Kostnaður við hvern sýningargest var 9 þúsund, gestir greiddu að jafnaði 2.400 kr)

*28.800 kostaði hver gestur sem lagði leið sína í Íslensku Óperuna.

*108 þús. hver fæðing.

Þetta er allt saman meðalkostnaður og kannski ekki hægt að fullyrða upp á krónu að þetta hafi kostað þetta.

Þetta eru að mér finnst alveg ótrúlegar tölur. Hvað er t.d. málið með það að ef mér finnst Metallica skemmtilegri en Sinfónían þá þarf ég að borga fullt gjald en annars niðurgreiðir ríkið fyrir mig? Eða þá að ég vil frekar fara í bíó en í leikhús og þá þarf ég að borga fullt gjald með okri en ef ég vildi frekar fara í leikhús á væri miðinn niðurgreiddur fyrir mig?
Mér finnst þetta alveg ótrúlegt. Það getur ekki verið eðlilegt að gera svona upp á milli skattborgara eingöngu eftir því hvernig smekk þeir hafa.Hananú

Engin ummæli:

Skrifa ummæli