27 janúar 2006

Hver á sumarbústaðinn...?
... Já eða nei?

Það hefur tæplegast farið fram hjá neinum sem les/horfir/hlustar á fréttir þessa síðustu og verstu daga að stöku sinnum eiga sér stað glæpsamleg athæfi. Allt frá því að vera "tittlingaskítur" og upp í alvarlega glæpi svo sem morð, nauðgun og fleira miður geðfellt.
Ekki ætla ég að fullyrða um hvort þetta sé einhver breyting frá fyrri tíð. Þetta hefur víst alltaf fylgt mannskepnunni. Hins vegar eru fjölmiðlar bara að verða stærri og meiri og upplýsingaflæðið eftir því.
Það sem ég hins vegar er búinn að vera á leiðinni að koma inn á er þessi tenging við Al-Kaída alltaf hreint. Nú í gær var lögreglan í R-vík að finna ræktunarstöð fyrir kannabis plöntur. Þar var víst ræktað kannabis í grammatali og varð mönnum nóg um þegar þeir komu á vettvang. Ekki hefur enn þá fundist neitt sem tengir þennan "hring" við Al-Kaída en menn reikna þó alveg eins með því.
Ok, þetta eru kannski smá ýkjur því auðvitað er ekkert Al-Kaída á Íslandi. Það er einn kebab-staður og búið.
Mér finnst hins vegar ótrúlega oft í fréttum frá útlöndum þar sem einhverjir glæpir koma við sögu, að þessi samtök og hin samtökin tengist Al-Kaída.
Al-Kaída er eitthvað sem menn vissu varla hvað var fyrr en í september fyrir nokkrum árum síðan. Núna má ekki taka túttu út úr smábarni án þess að það sé í tengslum við fyrrnefnd samtök.
Þetta minnir mig oftar en ekki á fréttaflutninginn fyrir nokkrum árum frá Akureyri sem var þannig að ef eitthvað misjafnt gerðist í bænum og komst í fréttir þá var alltaf talið að um utanbæjarmann væri að ræða!!!

Ástæðan fyrir því að ég er að röfla þetta er sú að þessi frétt segir frá því að vegabréfafalsarahringur í Kólumbíu sé hægri hönd Bin Laden eða svo gott sem...

Enn og aftur er íslenska dómskerfið að sýna hversu lélegt það er. Í einu orði sagt "með skítinn upp á bak".

"Karlmaður var í Hæstarétti í dag dæmdur í fangelsi í fjóra mánuði, fyrir kynferðisbrot gegn 10 ára stúlku í húsi að næturlagi þar sem þau voru bæði gestkomandi. En fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð." fréttin á mbl.is

Hvað er málið? Maðurinn misnotar 10 ára gamla stúlku og fær 4 mánaða skilorðsbundinn dóm. Sem þýðir að ef hann brýtur af sér aftur, sambærilegt brot, þá fer hann mjög ólíklega í fangelsi heldur fær bara framlengingu á skilorðið.
Hann fær jú svartan blett í sakaskránna sína en það er ekki nema pínku brot af því sem stúlkan þarf að lifa með. Ég las þennan dóm á síðu hæstaréttar og þótti þetta miður geðfellt.
Smá copy/paste úr dómnum:

"Fram kom hjá B að dóttur hennar hefði fyrir umrætt atvik liðið vel og henni gengið vel í skóla. Á þessu hefði orðið mikil breyting. Hjá henni hefði gætt ótta við að „maðurinn“ kæmi. Þá gæti nú hjá stúlkunni sinnuleysis hvað varðar útlit, hún sé mjög þung andlega og hana skorti gleði."

Æi ég nenni eiginlega ekki að skrifa meira um þetta. Ég verð bara pirraður á þessu.
Núna er hins vegar stóra spurningin "hvað gerir DV?". Birta þeir litla klausu um þetta mál eða fáum við forsíðumynd af þessum níðingi og smá auka dóm ef svo má að orði komast, því ekki virðast dómstólar hafa getuna til að halda sínum eigin buxum uppi!
Ég er ansi hræddur um að DV eigi ekki eftir að birta neitt varðandi þetta mál sem ekki hefur komið fram í öðrum fjölmiðlum. Því miður.
Spurning með að koma af undirskriftasöfnun og skora á DV að birta mynd af þessum manni? Myndir þú skrifa undir?????

Engin ummæli:

Skrifa ummæli