03 febrúar 2006

Dæmisaga

Eitt sinn var bandaríkjamaður á ferðalagi í Mexíkó. Hann var í litlu sjávarþorpi að þvælast um og skoða. Þegar hann átti leið um bryggjuna kom hann að sjómanni einum þar sem hann lá sofandi á netahrúgu með 3 væna fiska sér við hlið.
Bandaríkjamaðurinn gat ekki stillt sig um að pikka í hann og spyrja af hverju hann lægi þarna sofandi kl 10 að morgni til. Af hverju hann væri ekki úti á sjó að veiða?

Ég er búinn að veiða 3 fiska sagði sjómaðurinn. Það dugar mér til að sjá fyrir fjölskyldunni í dag. Á morgun fer ég aftur út og veiði meira.

En ef þú héldir áfram að veiða þá myndirðu veiða fleiri fiska.

Hvað ætti ég að gera við fleiri fiska?

Þú gætir farið með þá á markað, selt þá og fengið pening fyrir þá.

Hvað ætti ég að gera við peninginn?

Þú gætir safnað þangað til þú hefðir efni á að kaupa þér stærri bát.

Hvað ætti ég að gera við stærri bát?

Þá gætir þú veitt meiri fisk og selt hann og fengið meiri pening. Þegar þú værir búinn að safna gætir þú keypt þér enn stærri bát og svo koll af kolli þangað til þú værir kominn með heila útgerð með nokkrum bátum og myndir græða fullt af peningum.

Hvað þá?
segir mexíkóinn

Þá gætirðu farið að taka því rólega og slappa af...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli