21 febrúar 2006

Níðingar...

Ég ætla að vona að sem flestir hafi horft á Kompás fréttaskýringaþáttinn á NFS á sun kvöldið. Þið sem ekki horfðuð á þáttinn skuluð gera það við fyrsta tækifæri. Þið getið horft á þáttinn með því að smella hérna.
Í stuttu máli þá fjallaði þessi þáttur um það hvernig barnaníðingar fara að við að veiða sér bráð. Hvernig þeir nota einkamálasíður, MSN messenger, SMS og svo má lengi telja.
Þáttarstjórnendur bjuggu til falska auglýsingu á einkamál.is. Þar sem kom skýrt fram að um væri að ræða 13 ára stúlku sem hefði áhuga á að kynnast eldri STRÁKUM. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Eftir tvo sólarhringa voru yfir 80 svör búin að berast. Mörg hver frá fullorðnum mönnum.
Þeir elstu voru á sjötugs aldri. Fréttamennirnir völdu handahófskennt 4 einstaklinga og héldu áfram sambandi við þá, allt undir því yfirskyni að um væri að ræða 13 ára stúlku.
Í þættinum voru sýnd brot úr bréfum sem send voru á milli, brot úr sms-um, upptökur af símtölum voru spilaðar og fleira sem sýndi hversu brengluð starfsemi er í gangi í toppstykkinu á svona mönnum. “Þetta verður ekkert kanínuhopp” sagði einn þeirra við “stúlkuna” í síma. Ekki veit ég hvað kanínuhopp er og einhverra hluta vegna þá langar mig ekkert að vita það. Annar spurði hvort hún væri komin með brjóst og hár í klofið. Hann hefur örugglega orðið fyrir vonbrigðum þegar hún sagði að svo væri.

Ritstjórar þáttarins ákváðu að birta ekki myndir af þessum mönnum. Þeir birtu því einungis gælunöfn mannanna, nöfnin sem þeir notuðu á netinu, og aldur. Menn á fimmtugs- og sextugsaldri skrifuðu á messenger eins og þeir væru 15 ára. Orð eins og “geggt”, “Mega” og eitthvað. Segið svo að gamalt fólk kunni ekki á tölvur og netið. Þetta er bara spurning um vilja!

“Stúlkan” mætti sér mót við nokkra af þessum mönnum. Þegar á staðinn var komið birtist fréttamaður kompás ásamt myndatökumanni og vatt sér upp að mönnunum. Þeir voru auðvitað eins og mestu fífl og vissi lítið hvaðan á þá stóð veðrið. Andlitin á þeim voru “blörruð” en hins vegar er ég alveg nokkuð viss um að ef maður hefði á annað borð þekkt þessa menn þá hefði maður þekkt þá í sjónvarpinu líka. T.d. einn sem var 64 ára að mig minnir. Hann lýsti því hvernig hann þurfti að fara í útkall út af vinnunni til Keflavíkur deginum áður. Hann var gráleitur að sjá í gegnum blörrið. Þegar fréttamaðurinn birtist þá rölti hann af stað og þóttist ekkert vita. Svo kom svona inn á milli eitthvað með að hann væri að gera könnun á þessum málum. Að hann væri alls ekki níðingur. Það hefði jafnvel komið til greina að tilkynna foreldrum stúlkunnar þetta. Hann rölti svo að bílnum sínum, með myndavélina á eftir sér. Það var sýnt þegar hann keyrði á brott á silfurlituðum Subaru Legacy með álfelgur og einhvern límmiða í afturrúðunni. Það er alveg pott þétt að þeir sem á annað borð þekkja þennan mann og sáu þennan þátt hafa þekkt hann úr sjónvarpinu.

Það hefur þó nokkur umræða skapast um þennan þátt í fjölmiðlum. Hinir og þessir sérfræðingar að tjá sig um þetta mál. Það kom fram í þættinum í viðtali við ríkissaksóknara að lítið væri hægt að gera í þessum einstöku málum. Þrátt fyrir að brotaviljinn hefði vissulega verið til staðar. Það er eitthvað með tálbeitur sem er ekki svo þjált í lögunum. Það þykir víst eitthvað vafasamt að nota þær. Nýsir gaf út yfirlýsingu í gær um að þeir hefðu náð samkomulagi um starfslok við einn starfsmann sinn sem viðurkenndi að vera einn af "mönnunum" í þessum þætti.

Mín skoðun.
Svona mál eru alltaf erfið. Einhvern veginn þá fær maður bara hroll niður hryggsúluna þegar maður hugsar um svona níðinga. Hins vegar verð ég að segja það sem mína skoðun að svona notkun á tálbeitu er vafasöm. Það er einhvern veginn bara þannig í mínum huga að þegar menn eru egndir til afbrota þá vegur það allt öðruvísi. Ekki það að mér finnst þetta mjög gott framtak hjá NFS og allt það og þarft mál að koma þessu í umræðuna.
Það er líka eins og þessir tugir þúsunda manna sem skrifuðu undir DV listann myndu eflaust benda á núna að þessir menn hafa ekki verið dæmdir fyrir eitt né neitt. Þeir brutu í raun og veru ekki nein lög heldur. Það "eina" sem þeir gerðu var að vera með einbeittan brotavilja. Því munu þeir sem skrifuðu á þennan fræga lista eflaust halda áfram að boða sinn boðskap. Menn eru ekki sekir fyrr en sekt er sönnuð. Sekt getur án efa ekki verið sönnuð fyrr en brot er framið. Því hlýtur þetta að vera samkvæmt sömu siðapostulum (eins og Hjálmari Árnasyni t.d.) óþarfi hjá NFS að vera að “níðast” á þessum sömu mönnum.

Ég óska eindregið eftir því að fólk tjái sig um þetta mál. Sérstaklega óska ég eftir þeim mörgu sem ég þekki, veit að skoða þessa síðu og síðast en ekki síst veit að skrifuðu undir DV-listann, tjái sig um þetta mál...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli