18 mars 2006

Ert þú listamaður?

Sá viðtal við listamann í Blaðinu í vikunni. Oft finnst mér listamenn skrítnir. Þessi er það líka, allavega miðað við viðtalið.
Ein spurningin hljóðaði svo:
"Ef þú ættir að lýsa verkum þínum í mjög stuttu máli hvernig yrði sú lýsing?"
og svarið var eftirfarandi:
"Ég bý til óafturkræft sundurtætt verk úr nútímalegum efnum en reyni um leið að raða þeim saman þannig að hægt sé að ímynda sér endurröðun þeirra í heillegu ástandi. Í því birtist ákveðinn vonardraumur."
Blaðið fimmtudaginn 16.mars

Svo mörg voru þau orð. Er það bara ég eða skiljið þið hvað maðurinn er að fara?

Annars er ég fluttur í Garðana. Fínt að vera hérna. Allir velkomnir sem vilja kaffi og með því.

Herinn að fara. Allir agalega hissa. Skrítið þar sem þessir allir vissu alveg að þetta væri í vændum. Nú kemur í ljós hvað ríkisstjórnin hefur verið að bralla til að taka við öllu fólkinu sem missir vinnuna. Ekki ólíklegt að það verði atvinnubótavinna í álveri sem tekur við. Nóg pláss fyrir álver. Það er bara vonandi að þetta hafi ekki áhrif á fyrirhugaðar framkvæmdir fyrir norðan (ekki það að ég myndi fagna en þetta er jú meirihlutinn sem vill fá þetta, þannig virkar lýðræðið).
"Blóðugt" sagði einn verkalýðsforkólfurinn. Þetta hafði bara aldrei hvarflað að honum.
Mín hugmynd er sú að segja bara bandaríkjamönnum að hipja sig burt. Þá myndu þeir örugglega vilja vera lengur. "Við viljum ekki hafa ykkur lengur, farið sem allra fyrst og takið það með ykkur sem þið viljið. Það sem verður skilið eftir verður eign íslensku þjóðarinnar" svona c.a. þetta gæti Dóri sagt við Bush.

Eina sem ég er hræddur um er að þegar herinn verður farinn þá erum við svo veikir til norðvesturs. Grænlendingar hafa verið að eflast síðustu ár og maður veit aldrei hvenær þeim dettur í hug að gera innrás. Við getum ekki treyst á neinn því það eru allir Íslendingar í útrás!!!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli