15 mars 2006

Að horfa á myndband

Ég ætla að umbreyta aðeins gömlu fleygu setningunni “að horfa á myndband er góð skemmtun” yfir í “að skrifa ritgerð er ekkert sérstaklega skemmtilegt, en að klára langa ritgerð er frábær tilfinning”. Þar hafið þið það. Var að klára eina 22 síðna, í gær, um útrás íslenskra fyrirtækja. Engin tía kannski en ágætis fróðleikur um útrásina og yfirsýn yfir stöðuna eins og hún er í dag.

Veit ekki hvort þið hafið tekið eftir því að ég hef ekkert nöldrað yfir umferðinni í dágóðan tíma (ekki svo ég muni allavega). Þannig er nefnilega mál með vexti að ég fattaði það einn daginn að stundum er ég orðinn of seinn eitthvað og þá keyri ég oft eins og fífl og sviga og tek allan pakkann á þetta til að flýta fyrir mér. Núna þá hugsa ég bara með mér að menn hljóti að vera að flýta sér og þetta fer bara ekkert í taugarnar á mér lengur. Svínar einhver fyrir mig “hann er bara á hraðferð kallinn” hugsa ég og brosi. Reyndar hef ég ekki fundið neitt trikk á gamla fólkið sem er svo alls ekki að flýta sér. Mér finnst miklu óskiljanlegra að flýta sér ekki þegar menn eru í umferðinni. Til hvers að leggja allt of tímanlega af stað bara til að geta keyrt hægt!! Kannski það sé einhver önnur ástæða fyrir því að gamla fólkið keyrir hægt, veit ekki...

Var einmitt að keyra á eftir fullorðnum manni á ungum Yaris áðan. Hann keyrði svona 2 km með stefnuljósið á. Ég var tvisvar stopp fyrir aftan hann á rauðu ljósi og stefnuljósið blikkaði allan tímann til vinstri. Nokkru seinna þá kom að því að beygja til vinstri og þá tók hann stefnuljósið af nokkrum metrum áður en hann beygði!!! Kannski einhver bitur maður sem er að mótmæla öllu ranglætinu í lífinu, veit ekki...

Held að þetta sé svona það helsta sem er í gangi hjá mér þessa dagana. Nema jú ég fæ íbúð í stúdentagörðum í dag. Eggertsgata átján íbúð hundraðogfjögur ef ég man rétt. Sem minnir mig á það að ég þarf að fara niður á Sýsluskrifstofu og fá stimpil á leigusamninginn. Hvar er eiginlega Sýsluskrifstofan í Reykjavík? Þetta bara verð ég að fá að vita...

Eitt að lokum. Ég á voðalega erfitt með að muna að það sé komið árið 2006. Veit ekki af hverju. Átti aldrei erfitt með að muna árið 2005. Hins vegar lenti ég einu sinni í vandræðum með að muna hvað ég væri gamall árið 2004. Ekki vegna þess að það var svo erfitt að reikna heldur vegna þess að ég hafði ekki hugmynd um hvaða ár væri. Sjúkdómsgreiningin er sem sagt sú að ég á erfitt með að muna annað hvert ár...

Þetta er Andri.is sem bloggar hugsanlega í síðasta skiptið frá Gettóinu

Engin ummæli:

Skrifa ummæli