24 mars 2006

Staðlar

Mig langar óskaplega að nöldra aðeins yfir stöðlum eða staðlaleysi í heiminum. Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að hafa hluti staðlaða? Til dæmis þá á ég, og nota, skó frá nr 44-47. Sem segir okkur að meðaltalið sé 45.5 sem er rangt því yfirleitt kaupi ég skó nr 45 og þeir eru fínir. Ég get hins vegar ekki treyst því að skór nr 45 passi á mig og það finnst mér heimskulegt og leiðinlegt. Væri til dæmis vandamál ef ég myndi nota skó sem væru X margir cm því löppin á mér er einmitt X margir cm? Þá væri meir að segja hægt að hafa líka skóna í tommum fyrir vitleysingana sem nota þá mælieiningu.
Svo er S-M-L-XL ekki nógu góð stöðlun. Yfirleitt nota ég L en stundum M eða XL. Það er ekkert meira pirrandi en þegar maður fær t.d. peysu í "einhverja"-gjöf og segjum að hún sé XL. Síðan þegar Andri mátar hana þá kemur á daginn að staðallinn er miðaður við að Shaquille O'Neal noti XL. Næst fær maður peysu sem er L og þá er hún of lítil. Væri það of flókið að nota kerfi sem byggist á lengd einstaklinga? Það þyrfti kannski ekki að vera flík fyrir hvern einasta sentimetra bara eitthvað bil. Til dæmis myndi ég geta notað peysu sem væri fyrir menn á bilinu 180-190 cm. Ef þetta er of stórt bil þá væri hægt að hafa það 5 cm.
Þetta eru svona dæmi um staðla. Þá eru eftir t.d. DVD+ & DVD-, region á DVD er alveg óþolandi (hafa þessir menn ekki heyrt um hnattvæðingu? það ætti að vera ólöglegt að hafa þetta svona).

Svo ef maður vill vera mjög smámunasamur þá er alveg óþolandi að sykurmolar geti ekki verið af staðlaðri stærð. Maður fær sér 2 mola einhverstaðar og það er eins og maður hafi gleymt að setja sykur í kaffið. Næst þegar maður fær sér tvo þá er eins og heil sykurkrús hafi dottið ofan í bollann!! (ekki koma með þau rök að maður eigi bara að sleppa því að fá sér sykur í kaffið. Það eru svipuð rök og ég myndi segja að maður ætti bara að skjóta sig í hausinn því þá færi staðlaleysið ekki í taugarnar á manni).
Sama gildir um sykur-kar með svona röri þar sem maður hellir sykri í kaffið. Það er bara eins og að vinna í lottó þegar maður fær drekkandi kaffi eftir að hafa notað þetta rusl.

Þetta snýst kannski meira um að það séu of margir staðlar í gangi. Ég vil bara hafa einn staðal fyrir hvern hlut og þá er maður í góðum málum.
Það er endalaust til af svona staðlaleysi og þið megið endilega hjálpa mér að telja þetta helsta upp í kommentunum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli