01 maí 2006

hitt og þetta, héðan og þaðan

Það er ýmislegt í gangi.
Prófin eru að skella á. Leiðinlegur tími þessi prófatíð, en þó ekki. Það er viss stemming einhvern veginn. Samt leiðinlegt að vakna upp við að hafa ekki stundað námið nógu markvisst alla önnina og þurfa að hysja heldur betur upp um sig brækurnar!!

Tók bensín áðan. Kannski ekki merkilegur atburður en þó. Fékk 16 lítra fyrir 2000 kr sem mér finnst alveg út úr kú.

Mótorhjólakapparnir eru mættir í bæinn. Skrapp á fótboltaæfingu í morgun. Það voru mótorhjólamenn út um allt. Ég væri alveg til í að vera einn af þeim. Heldur betur.
Jafn vel að maður kaupi sér bara vespu. Svona svipað stykki og ég leigði á Kanarí um jólin. 125 cc græja. Fer upp í 120 þannig að maður ætti ekki að vera flækjast mikið fyrir í umferðinni. Stóri kosturinn er hins vegar sá að þetta eyðir engu bensíni (eða svo gott sem, auðvitað eyðir þetta bensíni en bara smá). Svo til að tryggja að þetta verði ekki of vinsæll fararskjóti þá kosta tryggingar á svona græju heila gommu. Er einhver game í vespu-teymi?

Er búinn að vera að hlusta á James Blunt í bílnum. Hef hlustað óteljandi oft á Back to Bedlam diskinn og finnst hann ótrúlega góður. Er hins vegar búinn að vera að pæla. Af hverju þykir það ekki fínt hjá "tónlista-elítunni" að hlusta á James Blunt? Ég þekki nokkra sem tilheyra, að mínu mati, þessari elítu og þeir vilja bara ekki heyra hann nefndan. Bara Damien Rice eða eitthvað álíka. Ég veit það eru nokkrir úr þessari "elítu" sem skoða þessa síðu reglulega og væri ég til í að fá þeirra hlið á þessu máli. Hvað er málið? Það mega samt allir segja hvort þeir kjósi að hlusta frekar á Blunt eða Rice...

Ekki ósvipað þessu er kvikmynda-elítan. Þetta er auðvitað enginn sérstakur hópur heldur meira bara fólk sem gefur sig út fyrir að spekúlera kvikmyndir eins og hinir spekúlera tónlist.
Kvikmynda-elítan er með mikla fordóma gagnvart Hollywood kvikmyndum. Þær bara geta ekki verið góðar. Hins vegar ef það er verið að sýna mynd sem er ekki framleidd í USA þá er hún góð. Vel leikstýrð og góðir leikarar og ég veit ekki hvað og hvað.

Að mínu mati á þetta skylt við lista-elítuna. Ef einhver sem heitir eitthvað sérstakt hefur krotað einhverjar myndir þá eru þær flottar. Ef einhver "nobody" hefur krotað mynd þá er hún ekkert sérstök. Síðan ef svo vill til að þessi "nobody" detti í lukkupottinn og verði þekktur þá verða allt í einu myndirnar, sem hann krotaði fyrir löngu síðan, flottar.

Eitt ágætis dæmi sem ég man eftir var frá Frakklandi. Þá var lítill 3 ára krakki að lita með vatnslitum, eins og litlir krakkar gera. Hann teiknaði ekkert sérstakt heldur bara krotaði, eins og litlir krakkar gera. Það vildi svo ótrúlega til að þetta barn var undan, ekki Orra frá Þúfu heldur einhverjum frægum frönskum listamanni. Viti menn lista-elítan og gagnrýnendur sáu eitthvað stórfenglegt við þetta krot. Þetta væri greinilega framtíðar listamaður!!!

Þorir enginn að benda á að konungurinn sé ekki í fötum? Ég hvet alla til að horfa á teiknimyndina um Nýju föt keisarans. Veit ekkert hvernig gagnrýnendur tóku henni en boðskapurinn á svo sannarlega heima meðal okkar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli