08 maí 2006

Púngtar

Næsta skref er hafið. Hef ekki bloggað í smá tíma sökum annríkis.

*Prófin eru í gangi. Gengur svona la la. Er ekki búinn að standa mig nógu vel í vetur í skólanum í vetur og kemur það fram núna þegar maður þarf að læra undir prófin. Kannast einhver við þetta?

*Fór á uppboð hjá lögreglunni í Reykjavík á laugardaginn. Keypti mér mjög flott Diamond gírahjól. Fjólublátt að lit. Fyrir gripinn borgaði ég sem samsvarar fullum tanki af bensíni eða 6 þúsund krónur. Ekki slæm kaup það. Meðal annarra hluta sem ég bauð í voru 10 stk regnhlífar. Þær fóru á 1000 kr, missti af þeim. Bauð 2000 kr í 3 stk bílageislaspilara, þeir fóru á 4000 kr.
Bauð 500 kr í gradda sem seldist á 3000 kr. Svo var jarðvegsþjappa nr 5 (sem ég veit ekki hvað er), hún var svo þung að það var ekki hægt að lyfta henni og sýna fólkinu. Þess vegna þorði ég ekki að bjóða nema 1000 kr í hana. Já og hún gekk fyrir bensíni. Man ekki á hvað hún fór.
Þarna var fullt af fólki sem gerði góð kaup. Verð hins vegar að lýsa yfir vonbrigðum mínum með fólkið sem var þarna. Ég fór þarna til að gera góð kaup og örugglega margir aðrir. Samt virtist vera nóg af fólki sem var ekki komið til að gera góð kaup. Til dæmis var verið að bjóða upp yfir 200 reiðhjól. Í hvert skipti sem það komu svona þokkalega nýleg hjól þá buðu menn í þau eins og það væri síðasta hjólið í heiminum. Hvað er t.d. málið með að borga 17 þúsund kr fyrir pínku ryðgað fjallahjól sem kostar nýtt 15 þúsund í Hagkaup? Þannig var þetta bara oft.
Mér finnst óskiljanlegt að kaupa hjól á 23 þúsund sem kostar nýtt 25 þúsund.

*Nicola Niksic hringdi í mig um daginn. Hann bað að heilsa:)

*Það er að öllum líkindum komið sumar. Allavega voru næstum 20 gráður hérna í fyrradag. Alveg rosalegt. Sagan segir að það hafi verið alveg jafn hlýtt fyrir norðan. En samt alveg ágætt þar. Það hefur komið mér gríðarlega á óvart hversu milt og gott veður er í borginni alla jafnan. Eftir allar þessar þjóðsögur sem maður hefur heyrt gegnum tíðina þá kemur það á daginn að þetta er allt saman lygi! Það er bara búið að vera gott veður meira og minna síðan ég kom. Einstöku skúrir, ekkert meira en það.

*Man ég sá um daginn í einhverju blaðinu að múslímaheimurinn ætti í vanda þessa dagana. Málið er nefnilega að það eru múslímar sem eru á leiðinni út í geim. Þar, sem annarstaðar, þurfa þeir að biðja í átt til Mekka nokkrum sinnum á dag. Vandamálið felst í því að geimfarið ferðast á tugþúsund kílómetra hraða marga hringi í kringum jörðina á sólarhring. Spurningin er því sú hvert eiga mennirnir að snúa þegar þeir biðja? Þessi spurning ásamt mörgum öðrum var umræðuefni á ráðstefnu sem var haldin í Malasíu fyrir skemmstu til að reyna að finna einhverja lausn á þessu máli. Ég veit ekki hver niðurstaðan úr ráðstefnunni var en það er greinilegt að Kóraninn hefur ekki tekið mið af því að menn væru í geimnum þegar þær bæðu til Guðs.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli