03 júlí 2006

Hræðsluáróður

Þessa dagana og reyndar síðustu vikur og mánuði hefur þjóðfélagsumræðan snúist mikið um svokallaðar varnir Íslands. Eins og flestir vita hafa bandaríkjamenn ákveðið einhliða að “hætt að verja landið”. Allir hermennirnir með allan sinn búnað eru að hverfa á braut. Þessir dátar sem veittu okkur íslendingum svo mikla varnartilfinningu. Þeir mynduðu hálfgerða skel um landið og við vissum öll að það væri ekki hægt að gera okkur mein.

Hvað tekur við? Að mestu leyti hefur umræðan snúist um það hvort Íslendingar þurfi á varnarliði að halda eða ekki. Menn eins og Hannes Hólmsteinn hafa tekið dæmi um farþegaþotu sem yrði rænt í Hollandi og flogið til Íslands. Ekkert varnarlið myndi þýða að við gætum ekkert gert. Þotan gæti flogið á Perluna, Hallgrímskirkju, Laugardalslaugina eða jafn vel Kringluna eða Smáralind. Vissulega er þetta möguleiki en hann er mjög fjarlægur. Menn sem eru á móti varnarliðinu eins og Steingrímur J. hafa haldið því fram að við eigum bara að vera hlutlaus þjóð og vera ekki að blanda okkur í baráttu um olíu og annað slíkt í heiminum. Með því að vera hlutlausir séum við ekki skotmörk hryðjuverkamanna.

Þessar umræður áttu sér stað fyrir nokkrum mánuðum síðan. Núna hefur umræðan hins vegar snúist meira yfir í svokallaða þjóðaröryggisdeild (öðru nafni leyniþjónusta) sem Björn Bjarnason ætlar að setja á laggirnar. Hún á að sjá um að njósna og fylgjast með því sem er að gerast í þjóðfélaginu því það gætu enn þá leynst kommúnistar í einhverju skúmaskotinu eða þá að Al-Kaída gæti verið með eitthvað ráðabrugg um að sprengja niður Hallgrímskirkju.

Aftur fer umræðan að snúast um “hvað ef?”. Hvað ef erlendir öfgahópar hyggjast gera einhvern óskunda hérna á Íslandi og við höfum enga þjóðaröryggisdeild sem getur njósnað og því myndi þetta koma okkur að óvörum.

Ástæða fyrirsagnarinnar er akkúrat þessi. Hræðsluáróður er eitthvað sem virðist vera mjög inn í dag. Rökin fyrir hinni og þessari vitleysunni eru alltaf að það séu vondir menn út í heimi og það er aldrei að vita hvenær þeir sjá Ísland sem skotmark. Þetta er óneitanlega farið að minna mikið á Michael Moore myndina sem kom út hérna um árið, Bowling for Columbine. Þar fjallaði Moore einmitt um þennan hræðsluáróður sem viðgengst í Bandaríkjunum. Með því að hræða fólkið og gera það óöruggt þá er hægt að fá þetta sama fólk til að samþykkja ýmislegt og láta margt yfir sig ganga.
Einnig fjallaði myndin V for Ventetta um þennan hræðsluáróður og heila þjóð sem var í ruglinu vegna hræðslu við vondu mennina.

Þegar ég fer út á daginn þá er ákveðin hætta sem ég þarf að lifa við. Til dæmis þá er mjög mikið af býflugum og vespum fljúgandi út um allt. Ég gæti tekið þann pólinn í hæðina að ganga um með flugnanet á hausnum. Þannig myndi ég tryggja mig fyrir biti/stungu frá þessum skaðræðisskepnum. Er það eins og ég vil hafa það? Nei ég myndi sko halda ekki. Frekar geng ég um án flugnanets og tek því “áhættuna”. Ef ég geri þessum flugum ekki mein þá eru sáralitlar líkur á að þær stingi mig. Ég hef til dæmis aldrei verið stunginn af svona kvikindi.
SAMT SEM ÁÐUR ÞÁ GÆTI ÞAÐ GERST AÐ ÉG YRÐI STUNGINN.

Meira síðar...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli