25 júlí 2006

Þingeyskar þjóðsögur

Nýr liður sem verður væntanlega mjög óreglulegur, hefur hafið göngu sína. Liðurinn heitir þjóðsögur Þingeyinga og er saga af Þingeyingi (oftast þó Húsvíkingi eða einhverjum búsettum á Hú). Sagan getur verið sönn eða ósönn, ýkt eða ekki. Engin ábyrgð er tekin á sögunni eða sannleiksgildi hennar.

Fyrsta sagan er af Elíasi Frímanni bekkjarbróður mínum.
Þannig er mál með vexti að Elías flaug suður með fyrsta flugi á föstudags morgni fyrir misseri síðan eða svo. Hann er mættur í borg óttans snemma og ákveður að rölta bara í bæinn af flugvellinum.
Þegar hann er kominn áleiðis, að nálgast tjörnina mætir hann tveimur mönnum. Þessir menn voru heldur illa til fara og virtust til alls líklegir.
Þeir stöðvuðu Elías og spurðu í ógnandi tón hvort hann ætti pening.
Elías svarar, Já hann á eitthvað af honum.
Þá fara félagarnir fram á að fá peninginn afhentan en okkar maður heldur sko ekki.
Skiptir engum sköpum að annar félaginn kreppir hnefann og reiðir hann á loft en áður en hann nær að blikka augum þá er Elías búinn að kreppa sinn og setja einn í lúðurinn á honum. Til að leggja áherslu á mál sitt þá sparkar hann í afturendann á félaganum þar sem hann liggur rænulítill og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið.
Hinn félaginn lítur á Elías og svo á rænulítinn félaga sinn og ákveður svo að taka til fótanna og hleypur eins og með skrattann á hælunum á brott.

Að þessu loknu rölti Elli áfram eins og ekkert hefði í skorist og hringdi í lögregluna og lét þá hirða upp hræið!

Þá má með sanni segja að "félagarnir" hefðu getað valið sér eitthvað betra "fórnarlamb" til að ræna:)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli