19 september 2006

Heppni - óheppni

Núna hefur farið mikinn umræða í þjóðfélaginu um banaslys í umferðinni. Met ár hvað þetta varðar og nóg eftir enn þá. Ég held að öll umræða um svona málefni sé til góðs. Mun síðar koma í ljós hvort þetta skili sér. Þúsundir manna skrifa undir yfirlýsingu um að þeir ætli að haga sér vel í umferðinni og fara að settum reglum. Sumir benda á nauðsyn þess að hækka bílprófsaldurinn á meðan aðrir vilja setja reglur um hversu kraftmikla bíla ungir ökumenn mega keyra.
Þetta eru allt saman hugmyndir sem virka eflaust á sinn hátt. Það hlýtur að skipta einhverju máli að fólk sé árinu eldra þegar það fær prófið. Engu að síður er fólk nýkomið með bílpróf og því fylgir, að mínu mati, alltaf ákveðin spenna.

Það sem ég er að koma inn á núna er önnur hlið á teningnum. Hlið sem hefur kannski ekki oft komið upp í umræðuna en er að því er mér finnst hluti af þessu öllu saman.
Þegar ungt fólk fær bílprófið fylgir því þó nokkur spenna. Þessi spenna mun alltaf fylgja því að fá bílpróf, hvort sem fólk er 17 ára, 18 ára eða 20 ára.
Hver kannast ekki við ákveðið tímabil þar sem maður keyrði ansi geyst? Maður var barasta nokkrum sinnum nálægt því að lenda í einhverju sem hefði getað endað illa.
Hver kannast ekki við einhvern sem hefur keyrt útaf og velt og/eða einhvern sem hefur lent í nokkuð alvarlegu bílslysi?
Það sem ég er að reyna að benda á er að í þessu, eins og svo mörgu öðru í lífinu, þarf ákveðin "heppni", ef svo má að orði komast, að fylgja.
Það má alls ekki skilja þetta þannig að ég sé að halda því fram að það sé einfaldlega óheppni að deyja í bílslysi og að þetta sé þá bara útrætt mál. Það er til dæmis engin óheppni að vera ekki í bílbelti það er bara heimskulegt. Hins vegar er það ekki þannig að maður setji sjálfur fólk í bílbelti, þó að maður sé bílstjórinn og enn þá síður að maður sé eitthvað að stjórna í því hvort fólkið í hinum bílunum sé með bílbelti.
Ég held til dæmis að flestir (allavega strákar og eitthvað af stelpum) muni eftir einhverjum atvikum þar sem þau voru að keyra eða farþegar þar sem allt hefði getað endað mjög illa en gerði það ekki. Maður var kannski bara á rúntinum og að sjálfsögðu ekki í belti því maður keyrir svo hægt á rúntinum, og síðan áður en maður vissi af var bíllinn kominn á annað hundraðið í spyrnu og þrumað út fyrir bæinn. Það gerðist aldrei neitt.
Ég get talið upp örugglega hátt í 20 manneskjur sem ég þekki vel eða mjög vel sem hafa lent í atvikum (eins og þetta er kallað í fluginu) þar sem einhver eða einhverjir hefðu auðveldlega getað látið lífið. Þetta fólk var heppið og lifði af eða kannski bara dó ekki.
Það er hægt að yfirfæra þetta á svo margt annað í lífinu. Til dæmis kom upp fyrir nokkrum árum tvö mál með skömmu millibili þar sem maður sló annan mann einu höggi í höfuðið og höggið leiddi fórnarlambið til dauða. Hafa ekki c.a. 80-90% íslenskra karlmanna lent í slagsmálum á djamminu og slegið einhvern eða verið slegnir? Ég hef allavega slegið menn og líka verið sleginn. Enginn dáið samt.
Það er hægt að taka dæmi um margt annað sem gerist í daglegu lífi og gæti leitt til dauða.

Það er reyndar alveg spurning hvort það sé hægt að tala um að einhver sé heppinn í þessum dæmum sem ég hef verið að taka. Hvort það sé ekki réttara að tala um að vera ekki óheppinn. Maður þarf ekki að vera annað hvort heppinn eða óheppinn. Maður getur hreinlega verið bara hvorugt. Það er engin heppni að drepa ekki mann þegar maður kýlir hann heldur er það óheppni að drepa mann þegar maður kýlir hann.

Þeir sem hafa lent í svona atvikum eru oftar en ekki drullusokkar í þjóðfélaginu á eftir. Eðlilega kannski, kannski ekki. Einhver sem ákveður að keyra bara heim eftir 3 bjóra og veldur banaslysi. Hann er morðingi. Eyþór Arnalds keyrði t.d. bara á ljósastaur og er því bara skúrkur og allir búnir að gleyma þessu korteri síðar.

Nú er þetta orðið heil langloka sem ég ætlaði að reyna að hafa í nokkrum orðum. Vona að fólk nenni að lesa þetta til enda (þetta er reyndar eins og útvarpsmaður að biðja fólk um að stilla á stöðina sína ef það er ekki að hlusta).
Niðurstaða mín er því þessi. Fólk getur auðveldlega minnkað líkurnar á því að verða óheppið sbr. þennan pistil, því oftar en ekki er það fólkið sjálft sem tekur ákvarðanirnar en ekki einhver annar. Hins vegar geta lítilsvægar ákvarðanir orðið stórvægar þegar uppi er staðið.

yfir og út í bili

Engin ummæli:

Skrifa ummæli