12 september 2006

Varnaliðs-Valtýr


Björn Hákon vinur minn var með fyndna frétt á blogginu sínu sem hann fékk úr fréttablaðinu! Ekki það að ég hafi vísvitandi ætlað að herma nema þegar ég las blaðið í morgun þá barasta grenjaði ég úr hlátri!!! Ég sá að það þýddi ekkert annað en að leyfa ykkur hinum að njóta líka. Svo hér kemur fréttin:

Valtýr einn af þeim síðustu til að græða á veru Varnarliðsins
Í gegnum tíðina hafa margir makað krókinn á veru Varnarliðsins á Miðnesheiði. Nú fer hver að verða síðastur því stutt er í að Kaninn fari með sitt hafurtask til mikilvægari hernaðarsvæða. Valtýr Björn Thors er einn af þeim síðustu til að komast í feitt.

Valtýr hefur verið að vinna í brotajárnsmóttöku Hringrásar í Helguvík en þangað keyra nú varnarliðsmenn ruslið sitt í stríðum straumum.

"Þetta er ótrúlegt magn sem kemur hingað," segir Valtýr. "Það sem er smíðað fyrir herinn virðist vera úr skriðdrekastáli og vegur skrilljón tonn. Það er því ekki lógískt að fljúga með þetta úr landi. Við erum að taka á móti allskyns dóti, innréttingum, húsgögnum og tölvubúnaði; allt saman gæða stöff og öllu hent."

Valtýr segist hafa sett sér mörk þegar hann byrjaði að vinna hjá Hringrás um hvað hann ætlaði að hirða. "Ég bý í 45 fermetra íbúð með konu sem hefur annan skítastöðul en ég svo ég ákvað að hirða bara það sem gæti nýst mér við tónlistarsköpun. Ég hef m.a. hirt mixer, baritónhorn og risastórt hátalarabox sem hefur eflaust hangið neðan úr þyrlu einhvern tímann og blastað klassískri tónlist yfir hrísgjónaakra. Ég hef líka hirt allskyns framandi gosdrykki og endalaust af ógeðsnammi, svona stöff sem Kaninn er sólginn í. Einn daginn var komið með sjálfssala sem ég reif í sundur. Þar voru allskyns niðursuðudósir með tilbúnum réttum, en mér leist ekkert á þetta og gaf vinum mínum. Ég sá fyrir mér "silent treatment" hjá konunni ef ég hefði dregið þetta heim."

Valtýr segir mikinn áhuga á ruslinu. "Við erum rekandi fólk í burtu allan daginn og það eru sko engir fátæklingar á horriminni heldur menn á nýlegum Land Cruiser jeppum. Þegar við lokum kl. 18 koma jakkafatamennirnir og klifra yfir girðingarnar til að róta í ruslinu. Þetta er eiginlega stórt vandamál því við erum ábyrgir fyrir svæðinu. Þarna eru bílastæður sem menn eru að klifra í og hver veit hvaða ógeð leynist þarna. Við settum meira að segja upp skilti og báðum fólk vinsamlegast að hætta að sniglast þarna, en það gekk nú ekki betur en svo að daginn eftir var búið að kúka í kaffibollana okkar."


Undir þetta skrifar gunnarh hjá Fréttablaðinu.
Greinina má einnig sjá hérna í vefútgáfu Fréttablaðsins.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli