01 október 2006

Almenningssamgöngur

Mér var boðið í afmæli og kveðjupartý í gær. Nánar tiltekið í 107 svæðinu en þó ekki nema c.a. 25 metrum frá landamærum 101 vs 107. Nánar tiltekið næsta hús við Hlemm.
Ég velti því mikið fyrir mér hvernig ég ætti að komast þangað. Hef nokkrum sinnum undanfarið farið í einhver partý og eitthvað dót á svipuðum slóðum, hef þá yfirleitt farið á bílnum og svo fer allur sunnudagurinn í að velta því fyrir sér hvað ég nenni alls ekki að labba og sækja bílinn. Því vippaði ég mér á heimasíðu strætó og athugaði hvort ég gæti látið strætó skutla mér. Eitthvað sem ég hef ekki notað mjög lengi.
Þetta er víst þannig hjá strætó að maður þarf að mæta á fyrir fram ákveðinn stað á ákveðnum tíma og velja strætó með ákveðnu númeri til að komast á einhvern ákveðinn stað. Á heimasíðunni er hægt að fletta þessu bara upp sem ég og gerði.
Fann út að sá guli nr 15 myndi stoppa 16 min yfir svolítinn spöl frá minni stoppistöð. Sem sagt ég yrði að vera mættur um kl 20 min yfir og þá myndi strætóinn skutla mér nánast beinustu leið heim að dyrum. Fyrir þetta þyrfti ég að borga 250 kr. Ekki stafrænar krónur eins og maður notar nánast eingöngu heldur svona gull og silfur peningum eins og maður notaði þegar maður var yngri.

Ég hafði mikið fyrir því að týna saman þessar 250 krónur. Nánast ekkert gull. Þetta þyngdi mig um mörg grömm. Allavega þá kem ég röltandi niður götuna sem ég man ekki hvað heitir. Á eftir svona 50 metra í skýlið þegar ég lít til baka og sé hvar strætóinn kemur keyrandi niður götuna. Ég hugsa með mér að ég þyrfti að gefa aðeins í til að ná þessu. Ég labba eins og fætur toga. Ekki kom til greina að hlaupa. Maður hleypur náttúrulega ekki á eftir strætó, hvað þá á undan honum!!!
Þegar ég get nánast teygt mig í strætóskýlið sný ég mér við, strætóinn nánast kominn, ég veifa svona "ég þarf að fá að fljóta með kallinn" veifi en viti menn karl fauskurinn keyrir bara áfram eins og hann sjái mig ekki. Væntanlega að rifja upp einhverja ímyndaða reglu um að það megi ekki stoppa fyrir fólki sem stendur 15 metra frá helvítis skýlinu.

Ég reiddist alveg gríðarlega mikið og fór í huganum yfir öll þau helstu viðbrögð sem ég gæti sýnt. Ég tók á það ráð að halda kúlinu og rölta áfram. Held að ég hafi bara verið nokkuð kúl þegar Tinna keyrði framhjá mér og flautaði. Hana hefur pottþétt ekki grunað að ég væri að springa úr bræði og við það að fara gera eitthvað ólöglegt.
Ég sá hvar strætóinn stoppaði skammt í burtu á rauðu ljósi. Í örskamma stund hugsaði ég um hvort ég ætti að hlaupa og ná honum. Ekki til að fá far heldur til að beita bílstjórann ofbeldi. Ofbeldi getur nefnilega leyst ýmis vandamál ef maður beitir því rétt.
Þegar ég rankaði við mér úr bræðikastinu var ég rennandi sveittur, bara sökum reiði. Nýkominn úr sturtu og búinn að úða mig frá toppi til táar með góðum ilm. Þá snögg reiddist ég bílstjóranum aftur, nú fyrir að láta mig svitna úr reiði.

Þetta endaði nú bara þannig að ég rölti við hjá Ævari og vorum við samferða í partýið. Þurfti að koma við í Dreka sjoppunni til að losa mig við klinkið sem íþyngdi mér á göngunni.

Þetta var sennilega síðasta tilraun mín til að nota strætó og mæli ég ekki með þessari samgönguleið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli