12 október 2006

Þetta er náttúrulega ekki eðlilegt

Síðustu daga hef ég verið að reyna að verða mér úti um svokallaðar húsaleigubætur.
Til þess að nýta sér þessi sjálfsögðu réttindi leigjenda þá þarf maður að leggja á sig gríðarlega vinnu.
Fyrir það fyrsta þá þarf maður að prenta út samninginn og fylla hann út. Það er í sjálfu sér ekkert flókið að prenta svona út. Heldur ekki að skrifa á þetta. Hins vegar eru þetta 2 blaðsíður og á þær þarf ég 4 sinnum að skrifa nafnið mitt, 4 sinnum kennitöluna, 4 sinnum heimilisfang (þrjú skipti þar sem ég hef ekki hugmynd um hvort ég eigi að skrifa lögheimili eða þetta tímabundna aðsetur á stúdentagörðunum).
Með þessu þarf ég síðan að senda húsaleigusamninginn, ég þarf að senda vottorð frá hagstofu íslands um að ég sé með tímabundið aðsetur á stúdentagörðum. Þetta vottorð fæ ég ekki nema hafa vottorð frá háskólanum um að ég stundi þar nám. Einnig þarf ég að senda vottorðið sjálft þó að það sé ljóst að ég fæ ekki að búa á görðunum nema að vera nemandi og skila ákveðnum einingum á ári og að ég fæ heldur ekki vottorðið frá hagstofunni nema að vera í skóla.
Ég þarf að prenta út eða ljósrita skattaframtal frá síðasta ári ásamt því að gefa leyfi fyrir því að þeir sömu og fá þessi blöð geti flett mér upp og skoðað hvaða tekjur ég hef og hef haft ásamt þeim sköttum sem ég hef borgað.
Einnig þarf ég að ljósrita launaseðla fyrir síðustu 3 mánuði.

Þetta er endalaus hringavitleysa og alveg ótrúlega týpískt fyrir þessa óþolandi skriffinnsku sem er alltaf að verða meiri og meiri í öllu þessu opinbera batteríi.

Ástæðan fyrir því að ég er að nöldra er þetta er sú að ég er alveg hreint orðinn BRJÁLAÐUR. Fór fyrir skömmu á hagstofuna til að fá þetta helv. vottorð. Því miður þú þarft að hafa vottorð frá skólanum. Fór aftur í dag og var þá með vottorð. Núna þegar ég er að taka þetta saman (spurning með að binda þetta bara inn þetta er svo mikið af blöðum!!!) þá kemur það á daginn að konan hafði ekkert látið mig fá þetta blessaða vottorð niðrá hagstofu. Hún tók bara ljósrit af skólavottorðinu og heftaði það við blaðið sem ég hafði fyllt út og sagði að þetta væri komið. Ég kenni henni alfarið um að ég þarf að fara í 3.skiptið í hagstofuna á morgun...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli