29 október 2006

Það sem ber hæst þessa stundina

Ætli það allra hæsta sé ekki nefaðgerðin sem ég fór í á föstudaginn. Mætti galvaskur á sjúkrahúsið snemma á fös morgun. Áður en ég vissi af var ég lagstur út af á bedda byrjaður að fá lyf bæði í æð og í lungun. Það var enginn sérstakur sjarmi yfir þessar svæfingu, annað en síðast þegar ég var svæfður. Núna var ég nefnilega svæfður af sérstökum svæfingalækni sem beitti til þess kæruleysis-lyfi og svo einhverju gasi sem ég kann ekki skil á. Lítið fútt í því. Síðast var ég hins vegar sprautaður með hreinu heróíni beint í æð (var reyndar sennilega morfín en þetta er svo náskylt að ég kýs að kalla þetta heróín). Önnur eins sæla og ég upplifði þá verður sennilega aldrei endurtekin. Þeir segja nefnilega að fyrsta heróínsprautan sé sú besta og fíknin gangi eftir það út á að reyna að toppa/jafn fyrstu vímuna. Þannig að óbeint má segja að ég hafi upplifað fyrstu sprautuna og jafnframt hætt á toppnum því ég hef lítið stundað þetta síðan.
Allavega þá lá ég milli heims og helju, svefns og vöku, og ég veit ekki hvað og hvað, allan föstudaginn á spítalanum. Svaf að mestu leyti en vaknaði mjög reglulega. Fór síðan heim á lau morgun og hef verið þar síðan. Er enn þá með umbúðir yfir nefinu þannig að ég hef ekki enn þá sé árangurinn. Hins vegar fer ég í það bráðlega að taka umbúðirnar af og þá kemur allt í ljós.
Hef tekið nokkrar myndir af öllu ferlinu og kem til með að birta þær á næstu dögum á síðunni.

Ég hef haft ágætis tíma til að fylgjast með fjölmiðlum síðustu daga. Það er eiginlega það eina sem ég hef getað gert. Þannig að ég náði til dæmis að fylgjast með prófkjöri sértrúarsafnaðarins kenndan við sjálfstæði. Þar endaði Guðlaugur Þór í 2. sæti. Hann sagði á mánudaginn í Ísland í dag, þegar talið barst að kostnaðinum við prófkjörið, að hann hefði til dæmis ekki verið með neina heilsíðu auglýsingu í blöðunum! Á þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag (veit ekki með laugardag) var hann hins vegar með heilsíðu auglýsingar í nokkrum blöðum.
Pétur Blöndal auglýsti svo gott sem ekki neitt. Hann var ekki með úthringingar, hann var ekki með kosningaskrifstofu. Hann hélt hins vegar nokkra fyrirlestra þar sem hann ræddi um sínar skoðanir og sín stefnumál. Kostnaður hans við prófkjörið var 2.7 milljónir króna. Núna er ekki hægt annað en að spyrja sjálfan sig hvað ætli prófkjörið hafi kostað hjá Guðlaugi Þór og Birni Bjarna?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli