12 október 2006

Vér meðmælum öll

Ég skrifaði þetta blogg fimmtudaginn 12.okt og ætlaði að birta það þá. Hins vegar þá var annað sem lá mér meira á hjarta og því beið ég aðeins með að birta þetta. Það þýðir ekkert að birta tvö blogg sama daginn! Sem sagt lesist með 12.okt í huga

Ég fór og meðmælti í dag. Fyrsta skiptið sem ég tek þátt í svona kröfugöngu. Reyndar var ég viðstaddur gay-pride síðasta sumars en þá var ég ekki að krefjast eins né neins, meira bara að sýna mig og sjá aðra.
Í dag var verið að meðmæla bættum skilyrðum til reksturs Háskóla Íslands. Stúdentar vilja meina að Háskólinn fái ekki nægt fjármagn og að stjórnvöld standi sig ekki nógu vel í að styðja við Háskólann með fjárframlögum. Þetta var alveg hin ágætasta skemmtun og reikna ég fastlega með að taka oftar þátt í meðmælum/mótmælum þegar það hentar mínum hagsmunum. Fram að þessu hef ég eingöngu séð svona atburði í sjónvarpinu. Oftast frá útlöndum þó. Þá eru oftar en ekki einhverjir öfgamenn, oft með lambhúshettu. Það vantaði svoleiðis í dag. Ég hef nefnilega mjög mikla trú á öfgum. Ég held til að mynda að það sé miklu líklegra til árangurs að kveikja t.d. í alþingishúsinu eða brjóta rúður og sprauta málningu á Alþingi heldur en að standa þar fyrir utan og lesa upp einhverjar ræður. Þetta er samt bara mín skoðun.
Frakkland er gott dæmi um land þar sem menn mótmæla af krafti. Ef bændur eru eitthvað ósáttir mæta þeir hundruðum ef ekki þúsundum saman og gera einhvern óskunda. Til dæmis að sturta vörubílshlössum af tómötum inn á McDonalds staði. Það virkar líka því það nennir enginn að standa í því að hafa bændurna brjálaða niðrí bæ.
Það var líka vinsælt í dag að hrópa slagorð. Þarna stóðum við öll og hrópuðum “Mennt er máttur!”, öll nema náunginn sem stóð fyrir aftan mig. Hann hrópaði “þett’er máttur”. Ég flissaði bara innra með mér og leit ekki við. Ef ég hefði litið við og séð hann, þá hefði hann kannski ekki verið jafn asnalegur og ég hafði ímyndað mér.

Það var líka svolítil kaldhæðni fannst mér þegar ég rölti frá Austurvelli með öll þessi helstu slagorð í huga. “Hærri námslán”, “Gerum betur við fátæka námsmenn” og hitt og þetta sem gerði mikið úr því hversu slæmt námsmenn hafa það. Þá varð á vegi mínum útigangsmaður sem var hálfur ofan í ruslatunnu að leita eftir dósum og flöskum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli