29 nóvember 2006

Þá er komið að því

Nú hef ég verið "sjálfstæðismaður" í rúmar 3 vikur. Líf mitt hefur svo sem lítið breyst við þetta.
Ég kaus Sigurjón um helgina. Því miður þá voru ekki nógu margir sem gerðu það.
Það er svona að vera úr litlu þorpi, maður hefur ekki fjöldann sem þarf til að standa við bak sitt.
Ég tala nú ekki um þegar menn eyða ekki milljónum í auglýsingar!
Mjög skömmu eftir að ég skráði mig í flokkinn birtist Árni Johnsen eins og fífl í fjölmiðlum og fór að röfla um tæknileg mistök. Þið þekkið öll þá sögu.
Strax þá hlakkaði mig óskaplega til að segja mig úr flokknum og láta það fylgja að það væri vegna hans. Sem það vissulega er. Ég hefði náttúrulega sagt mig úr flokknum, enda lang óháðasti maðurinn sem ég þekki, kannski fyrir utan tvo ættingja mína á Húsavík sem eru báðir á móti öllu og því kannski aðeins óháðari en ég!
Af þessu tilefni ritaði ég bréf til sjálfstæðisflokksins og sendi á sama netfang og staðfesti inngöngu mína. Ég óskaði eftir staðfestingu á því að ég væri ekki lengur í flokknum.
Ég hef verið varaður við því að það taki heila eilífð og rúmlega það stundum, að segja sig úr flokknum. Því hef ég gert eilitla áætlun sem er skotheld.
Að lokum þá birti ég bréfið sem ég skrifaði til flokksins. Vonandi fæ ég svar ekki síðar en á fim, því á fös hefst næsta skref í áætluninni.

"Sæl. Upphaflega skráði ég mig í Sjálfstæðisflokkinn til að taka þátt í prófkjörinu í NA kjördæmi. Ég hafði þó hugsað mér að vera áfram í flokknum og sjá hvernig málin þróuðust. Það breyttist hins vegar fljótt því ég var varla búinn að skrá mig í flokkinn þegar sá ótíndi þjófur Árni Johnsen birtist eins og álfur út úr hól. Í einni andrá breyttist mitt viðhorf til flokksins. Ég get hreinlega ekki hugsað mér að vera félagi í flokki sem hefur því líkar mannleysur innanborðs. Menn sem brjóta tugi hegningarlaga, taka ekki út nema brot af sínum dómi og koma síðan í fjölmiðlum kvabbandi um fyrirgefningu fólksins. Þetta hefðu jú eingöngu verið tæknileg mistök. Maðurinn heldur enn þann dag í dag að hann hafi ekki gert neitt rangt. Að hann hafi einungis verið að taka út það sem hann átti inni. Hann er með öðrum orðum siðblindur.
Það má ekki gleymast að við erum ekki að ræða um einhvern einstakling sem er skráður í flokkinn eða einhvern einstakling sem situr í 16. sæti á einhverjum listanum. Við erum að tala um að hann situr í 2.sæti á lista Sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi. Ég vil ekki fá að heyra neitt tal um frelsi einstaklinga til að ganga í flokkinn og bjóða sig fram, því það ku eflaust vera rétt, jafn rétt og frelsi mitt til að segja mig úr flokknum.
Hér með óska ég því eftir að vera afskráður úr Sjálfstæðisflokknum. Einnig óska ég eftir staðfestingu með tölvupósti um afskráninguna.

Með kærri kveðju Andri Valur Ívarsson"

Engin ummæli:

Skrifa ummæli