22 desember 2006

Þá er komið jólafrí

Langþráð jólafrí er í höfn. Sit í Leifsstöð og bíð. Veðrið er fínt þannig að það er engin fyrirstaða!
Vond spá fyrir öll jólin á Íslandi. Ekki gott mál það.

Ég hef náttúrulega ekki skrifað orð hérna lengi þannig að það er af nægu að taka!
Kompás, Byrgið, jólin, Guð, hin og þessi níð, Jón Sverrir að keyra út í á, stjórnmálamenn að drulla upp á bak með stjórnarmeirihlutann fremstan í flokki og svo framvegis.

Ég ætla hins vegar ekki að skrifa neitt um þessi mál núna! Það hefur mikið verið rætt og skrafað um þetta og því nenni ég ekki að halda því áfram.

Annað sem mig langaði að ræða. Sit núna í stöð Leifs eins og áður hefur komið fram. Fór í gegnum strangt ferli til að útiloka að ég kæmist með einhvern vökva með mér inn í flugstöðvarbygginguna. Það lá við að maður þyrfti að tappa af pissu-blöðrunni og borða salt til að þurrka sig upp!
Ég get ekki betur séð en að þetta sé hreinlega samsæri verslunareiganda. Maður má versla allan þann vökva og drasl sem maður girnist hérna í fríhöfninni og taka mér sér í vélina.
Sprengju eitthvað, myndi lýðurinn sennilega æpa núna. Ég segi "iss".
Ef einhverjir hálfvitar hyggjast sprengja flugvél með einhverri vökvablöndu þá gera þeir það eða með öðrum orðum þá gætu þeir alveg smyglað inn einhverjum vökva ef út í það er farið!

Nákvæmlega sama þykir mér gilda um öryggi Íslands. Nú hef ég oft rökrætt þetta við hina og þessa þ.e. varnir Íslands. "Það þarf að verja landið fyrir innrásum og slíkum hættum" segja sumir. "Það gerir landið öruggara og veitir fólki öryggistilfinningu".
Iss piss segi ég. "sýnilegar varnir". Þetta er bara rugl og menn ættu að skammast sín fyrir að segja svona. Þetta er hreinlega heimskulegt að segja svona.
Núna ætla baunar og nossarar að veita okkur sýnilega vörn. Það var nú frábært. Núna get ég sofið rótt.

Talandi um að sofa rótt. Þá er einn mætur maður sofnaður svefninum langa. Það er enginn annar en Turkmenbashi "faðir allra Túrkmena" eins og hann vildi láta kalla sig. Þetta er náttúrulega ekki neitt til að grínast með. Þetta var bara svo fyndinn karakter.
Sá einhvern tíman fréttaskýringu í 60 mínútum um þennan mann. Sérstakur karakter svo ekki sé meira sagt.

Jæja ég læt þetta duga í bili.
Að lokum langar mig að óska vinum og ættingjum og öllum hinum gleðilegra jóla og nýs árs. Þið sem fáið ekki jólakort frá mér (sem eru allir þ.e. enginn fær kort) en finnst að þið ættuð að fá það, ég hugsa til ykkar allra.

Kær kveðja AV

Engin ummæli:

Skrifa ummæli