04 janúar 2007

Nýtt ár

Til hamingju með nýja árið þið öll. Vonandi höfðu allir það gott um hátíðarnar.
Ég skellti mér á Sjanarí um jólin. Þar var hlýtt og bjart og fínt bara í alla staði.
Leigði mér vespu og krúsaði um fjöll og firnindi, þó aðallega firnindin.
Skaut engri rakettu né kveikti í tertu. Hins vegar skaut ég tekíla og borðaði rjómatertu.
Ég fór ekki á ball, fór hins vegar og horfði á tónleika með Elvis Presley. Ótrúlega vel á sig kominn miðað við aldur. Reyndar hefur enskan aðeins farið aftur hjá honum eftir öll þessi ár á Sjanarí. Fór líka í eiturslöngu-sýningu. Sá fullt af flottum og stórum og litríkum ormum. Sá líka mömmu mína burðast með eitt stykki Kyrkislöngu í XL stærð. Ég beið bara eftir að hnén myndu gefa sig á gömlu með hlussuna á herðunum. En hún stóð sig sú gamla í bókstaflegri merkingu því hnéin gáfu sig ekki!
Fyrir ári síðan þegar ég fór á Sjanarí þá stóð Evran € í 74 krónum. Um þessi jól var hún í 95 krónum. Það þýðir verðhækkun upp á hátt í 30%. Ef við gerum ráð fyrir því að kaupmenn þar ytra þurfi að standa undir 3% launahækkun og hækkun á öllum aðföngum í heimi, eins og kaupmenn hérlendis, þá hefur verðlagið þar ytra í fjölda evra aukist líka (sem mér sýndist það hafa gert). Þá erum við að tala um hækkun upp á hátt á fjórða tug prósenta á milli ára. Sem er alveg hreint óþolandi.
Því mælist ég hér og með með því að við hæstvirtir Íslendingar, sem megum veiða hval af því að hann er í sjónum okkar, leggjum minnimáttarkenndina til hliðar og tökum upp evruna. Eða í það minnsta bindum gengi íslensku krónunnar við evruna.
Þetta gengur ekki svona lengur.

Það var "gleðilegt" að sjá allar áramótahækkanirnar! Meir að segja svifryksmengunin hækkaði um áramótin, væntanlega bara til að fylgja öllu hinu og vísindamenn spá því að árið 2007 verði heitasta árið frá upphafi mælinga. Hins voru það ekki þessar hækkanir sem ég var að spá í heldu voru það allar hækkanirnar hjá hinu opinbera. Holræsagjöld, ruslatunnu-eitthvað, leikskólagjöld, hitt og þetta sem gamla fólkið nýtir sér og svo framvegis. Ég vona svo innilega að 3% hækkunin hrökkvi fyrir þessu.

Að lokum þá er ég sammála Pétri Blöndal þegar umræðan kemur að fátækum. Það er ENGINN fátækur á Íslandi samkvæmt Pétri og því er ég alveg sammála. Ég ætla meir að segja að gerast svo djarfur að taka undir það með honum að það sé ENGIN fátækt til í heiminum. Hann hefur reyndar ekki sagt það beinum orðum en það er það sem ég hef lesið á milli línanna.
Fátækt er ekki til.
Hana nú.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli