25 febrúar 2007

Breyttir tímar!

Er að gera verkefni um hvalveiðar við Ísland. Var að leita af upplýsingum um Alþjóða Hvalveiðiráðið og datt inn á frétt úr Morgunblaðinu. Þessi frétt er 2 mánuðum frá 10 ára afmæli sínu. Ég skora á ykkur að lesa hana! Ótrúlegt hvað tímarnir breytast hratt!

-------------------------------------------------------------------------------------------------

Þriðjudaginn 22. apríl, 1997 - Innlendar fréttir

Héraðsdómur Reykjaness fellir fyrsta dóminn um dreifingu á alnetinu

Dæmdur fyrir dreifingu kláms

HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær 42 ára gamlan mann til greiðslu sektar fyrir að dreifa klámefni á alnetinu. Þetta er í fyrsta skipti sem dreifing kláms með þessum hætti kemur til kasta íslenskra dómstóla.

Héraðsdómur Reykjaness fellir fyrsta dóminn um dreifingu á alnetinu

Dæmdur fyrir dreifingu kláms

HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær 42 ára gamlan mann til greiðslu sektar fyrir að dreifa klámefni á alnetinu. Þetta er í fyrsta skipti sem dreifing kláms með þessum hætti kemur til kasta íslenskra dómstóla.

Heimasíða mannsins var heimsótt 1.422 sinnum á tímabilinu frá júní til október 1996. Maðurinn sagði að þær 67 kyrrmyndir, sem hann var sakaður um að hafa dreift og sýndu nekt fólks og kynfæri, væru ekki klámmyndir heldur erótískar myndir. Sams konar myndir væru allt í kring á netinu og hann hefði því ekki talið þetta brotlegt. Þá teldist það ekki dreifing að hafa efni á heimasíðu á netinu, því efnið yrði að sækja í ákveðið hólf eða geymslu. Sjálfur hafði hann nálgast efnið á öðrum heimasíðum og safnað því saman á sinni.

Flókið aðgengi og falinn rofi

Maðurinn ítrekaði að hann hefði haft aðgengið að myndunum flókið. Hann hefði birt aðvörun á skjánum og rofi til að halda áfram inn á síðuna hafi verið falinn. Fulltrúi fyrirtækisins, sem seldi manninum aðgang að alnetinu, sagði hins vegar að í eitt skipti hefði verið svo mikil umferð inn á efni mannsins að kerfið hefði nánast stöðvast. Fyrirtækið vísaði til kannana sem sýndu að um 90% notenda á alnetinu hafi einhvern tíma leitað eftir klámfengnu efni og nær helmingur þeirra sem beiti leitarforritum séu að fiska eftir klámi.

Dómarinn, Guðmundur L. Jóhannesson, sagði að það yrði ekki talið að allir sem tengt hefðu tölvur sínar alnetinu hefðu haft aðgang að og getað séð myndirnar, vegna þess að töluverða tölvukunnáttu þyrfti til að nálgast þær. Hins vegar hefði maðurinn sýnt og dreift myndunum til ótiltekins hóps manna. "Það skiptir ekki máli hér þó að hlutaðeigandi verði að hafa frumkvæðið að því að sækja efnið inn á heimasíðu ákærða og má jafna þessu við dreifingu klámmyndblaða í kjörbókabúðum, þar sem kaupandinn verður að draga sig eftir þeim," sagði dómari.

Ekki vafi að myndirnar voru klám

Dómarinn taldi ekki orka tvímælis að myndirnar 67 væru klámmyndir í skilningi hegningarlaga.

Dómarinn tók tillit til þess að ekki yrði séð að maðurinn hafi hagnast á dreifingunni, en á móti kæmi að ótiltekinn hópur barna og ungmenna hefði getað haft aðgang að efninu án þess að maðurinn fengi nokkru um ráðið. Taldi dómarinn hæfilega refsingu 90 þúsund króna sekt og kemur 15 daga varðhald í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna. Maðurinn var jafnframt dæmdur í 40 daga varðhald, skilorðsbundið í 2 ár. Þá var honum gert að greiða málskostnað.
-------------------------------------------------------------------------------------------------
Heimild: Gagnasafn Morgunblaðsins sjá hér: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=327206

Engin ummæli:

Skrifa ummæli