22 mars 2007

Ég elska GOOGLE

Já það er rétt. Ég held að Google sé það sem ég er hvað ánægðastur með þegar kemur að netnotkun, það er ljóst. Það vita allir hvað Google er þ.e. leitarvélin.
Hitt vita ekki jafn margir að Google býður upp á alveg heil ósköp af forritum og síðum þar sem maður getur til dæmis búið til sína eigin Google upphafssíðu. Hér fyrir neðan má sjá upphafssíðuna mína hjá Google. Þið sjáið hvernig sólin er langt komin og himininn farinn að roðna. Sólin færist miðað við sólstöðuna þar sem ég er staddur. Á kvöldin og á næturnar er dimmt á ströndinni og tunglið svífur yfir, heilt eða hálft eftir því hvernig tunglstaðan er!
þetta er hins vegar aukaatriði því aðalatriðið eru kassarnir sem sjást þarna á myndinni.
Þarna er ég með nokkra kassa fyrir síður sem ég skoða reglulega eins og Vísir, Mbl, Rúv.is, Fótbolti.net og fleiri. Þarna birtast síðan alltaf nýjustu færslurnar á þessum síðum sem ég get smellt á og farið beint á fréttina. Svo eru þarna ofarlega til vinstri flipar. Einn fyrir þessa síðu, annar fyrir síðu sem inniheldur eingöngu blogg sem ég hef valið. Þá birtast fyrirsagnirnar þar og ég smelli bara á þær og fer beint inn á síðuna. Þið getið smellt á myndina til að sjá þetta stærra.
Næsti "fídus" sem ég nota mikið þessa dagana heitir Google Reader. Það heldur utan um öll þau blogg sem ég les reglulega þ.e. þau blogg sem ég les daglega um leið og eitthvað gerist á þeim bænum. Eins og sést á myndinni hér fyrir neðan þá eru þarna vinstra megin blogg sem ég hef valið. Mest eru þetta einhver pólitísk blogg eða einhver sem njóta mikilla vinsælda. Þegar það er ný færsla sem ég á eftir að lesa verður nafn bloggsins feitletrað og fjöldi færslna sem ég á eftir að lesa birtist fyrir aftan. Efst sést að það eru 17 færslur sem ég á eftir að lesa. Smellið á myndina til að stækka.


Síðan þegar ég vel eitthvað ákveðið blogg þá opnast það hægra megin og get ég lesið það þar í heild sinni. Þetta sparar manni ómældan tíma á degi hverjum, sem færi annars í að fletta í gegnum bloggsíður og athuga hver væri kominn með nýja færslu og hver ekki. Hér fyrir neðan er ég búinn að velja bloggið "Góðar fréttir?" sem er bloggsíða Andrésar Jónssonar og Góðra samskipta ehf. Smella=stækka.
Ef ég sé síðan áhugaverða færslu hjá einhverjum þá get ég valið "share" hnapinn og þá birtist bloggið í kassanum hérna til hliðar "nokkur valin blogg sem ég skoða". Það vill nefnilega svo heppilega til að google á einmitt Blogger sem hýsir bloggið mitt.
Eftir að hafa flett í gegnum færsluna hættir bloggið að vera feitletrað og sautján ólesin blogg verða sextán.

Google á fleira. Þeir hafa nefnilega gefið út forrit sem heitir Picasa og heldur utan um myndir. Mér leist einhvernveginn aldrei á þetta forrit en ákvað samt á endanum að gefa því séns. Því sé ég svo sannarlega ekki eftir. Þetta forrit heldur fallega utan um allar myndirnar mínar og raðar þeim niður á ótrúlegasta hátt eftir því hvernig ég vil. Það liggur við að forritið raði myndunum eftir því hver er á þeim!
Þar sem þetta er allt saman í eigu sama fyrirtækis þá er þetta allt saman samtvinnað. Sem þýðir að með einum smelli þá er ég búinn að setja eina möppu eða eina mynd á sérstaka myndasíðu á netinu. Síðu sem hefur geysilega mikið geymslupláss og gegn vægu gjaldi er hægt að stækka það í tugi gígabæta. Einnig þá hlaðast myndirnar sem ég set á bloggið mitt bæði í forritið sjálft og inn á myndasíðuna mína. Ég er einmitt búinn að hlaða inn slatta af gömlum myndum á þessa síðu og er ykkur velkomið að skoða. Myndaalbúm hérna vinstra megin.

Síðast en ekki síst þá er það Google Mail eða Gmail sem ég verð að minnast á. Gmail er í raun bara svar Google við Hotmail sem allir kannast við. Munurinn er bara sá að Gmail hefur í raun allt fram yfir Hotmail. Þar er notendaviðmótið mun betra. Á Íslensku ef menn kjósa sem svo. Geymsluplássið er næstum 3 gígabæt sem þýðir að maður lendir seint í vandamáli með fullt pósthólf eins og flestir kannast við hjá Hotmail. Gmail hefur einnig gríðarlega öflugar ruslpóst síur sem gerir það að verkum að maður þarf ekki að eyða tíma í hvert skiptið sem maður skoðar póstinn í að eyða út ruslpósti eins og maður þarf ALLTAF að gera í Hotmail.

Að lokum þá langar mig að minnast á Google Desktop sem er "fídus" sem sést á myndinni hérna fyrir neðan. Helsti eiginleikinn er sá að forritið býr til skjalaskrá (e. index) yfir gögnin í tölvunni. Svo þegar maður þarf að leita af einhverju skjali eða einhverju orði þá ýtir maður bara tvisvar á control og slær inn leitarorð í gluggann. Þetta er margfalt öflugri leitarvél en innbyggða leitarvélin í Windows. Kemur sér til dæmis mjög vel þegar maður er að læra fyrir próf og þarf að finna skilgreiningu á einhverju orði eða eitthvað álíka. Á myndinni má sjá hvernig Google Desktop lítur út hjá mér. Hægri hliðina er hægt að aðlaga fullkomlega að eigin þörfum. Þarna er til dæmis leitarvél sem leitar beint í Wikipedia alfræðiorðabókinni (leitar reyndar bara í þeirri ensku, ekki íslensku wikipedia). Klukka og svo eru þarna fyrirsagnir úr nokkrum bloggum sem ég skoða. Nota þetta reyndar lítið eftir að ég byrjaði að nota Google Reader. Svo er þarna minnislisti og eitthvað. Það eru endalausir möguleikar þegar kemur að því að aðlaga þetta að eigin vilja.


Fyrir að nota þetta borga ég ekki krónu. Þetta er allt saman rekið á auglýsingum og þess háttar. Eina sem þarf að hafa er Google Account sem allir geta fengið hér.

Að lokum má sjá hér að neðan hvernig sólin hefur sest og tunglið komið upp í staðinn.
Þetta er alls ekki tæmandi upptalning á því sem Google hefur upp á að bjóða. Meðal þess sem ég fjallaði ekkert um má helst nefna Google Earth sem allir ættu að vita hvað er, ef ekki þá er góð hugmynd að kynna sér það strax. Einnig Yotube og Google Video sem eru síður sem bjóða fólki upp á að hlaða inn vídeó skrám og sýna öðrum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli