18 mars 2007

Vikan að klárast

Ég nældi mér í pest á fimmtudaginn og var rúmliggjandi fram á laugardag. Það þýddi að fyrirhuguð ferð til Húsavíkur á herrakvöld Völsungs varð að engu. Var búinn að stefna á þessa ferð í 1.5 mánuði.

Alþingi er lokið. Keyrðu í gegn fullt af málum eins og gjarnan er gert svona undir lokin. Það ber sennilega hæst að fyrningarfrestur í kynferðisbrotum gegn börnum var afnumin. Það eru að mínu mati þörf lög. Þegar börn eru misnotuð þá líða oft mörg ár þar til þau hafa þroska til að tjá sig um atburðina. Þá er glórulaust að menn sleppi því það séu liðin X mörg ár síðan. Hins vegar verður að taka það með í reikninginn að það getur verið geysilega erfitt að sýna fram á svona hluti, kannski 20 árum síðar, þegar það stendur orð gegn orði.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt frumvarp til þessarar lagabreytingar síðastliðin fjögur ár. Loksins hafðist þetta í gegn.
Björn "Rambó" Bjarnason hrósar sjálfum sér í hástert fyrir þessi sömu lög.

Einhverjir vitleysingar týndust upp á fjöllum í vikunni. Þeir tóku áhættuna á að komast heim áður en vonda veðrið, sem spáð var, skylli á. Það mistókst hjá þeim og þurfti að kalla til björgunarsveitir og gott ef ekki þyrlu(?) til að leita af þeim.
Í kjölfarið byrjaði enn og aftur þessi umræða um hvort ekki væri réttlætanlegt að rukka svona vitleysinga fyrir kostnað við björgunina. Svona björgunarstarf kostar margar milljónir. Mín skoðun er sú að það sé eitthvað sem borgar sig ekki. Það hefur til dæmis sýnt sig hvað varðar sjóbjörgun að skipherrar veigra sér við að óska eftir aðstoð fram á síðustu stundu. Jafn vel að þeir eyðileggi möguleikana á björgun.
Ef við tökum dæmi um partý sem fer úr böndunum. Þá er gjarnan hringt í lögregluna til að skakka leikinn. Ef fólk væri rukkað fyrir þjónustu lögreglunnar þá er ansi hætt við því að þetta fólk myndi veigra sér við að kalla lögregluna til og þá ekki fyrr en í óefni er komið.
Því verður fólk bara að halda áfram að splæsa í flugeldar um áramótin og setja dósir í dósakassa björgunarsveitanna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli