10 apríl 2007

Breyttir tímar II

Dorrit forsetafrúin okkar slasaðist á skíðum í Aspen fyrir skemmstu. Hún skíðaði á skilti og slasaðist talsvert. Það kom fram í fréttum að sjúkraflutningamenn þar ytra töldu að hjálmur sem hún bar á höfðinu hefði orðið henni til lífs.
Í þessu samhengi rifjuðust upp ákveðnar æskuminningar.
Þannig var að ég, Elli og Viggi vorum miklir félagar á yngri árum, ásamt fleirum reyndar. Á sínum tíma (c.a. '90-'92) lenti Viggi í því að bíll keyrði í veg fyrir hann þegar hann var að hjóla eftir Garðarsbraut. Strákurinn sveif marga fallega metra, yfir bílinn og lenti á enninu. Uppskar fallegt ör sem hann bera enn þá (með miklum þokka að sjálfsögðu). Enginn var hjálmurinn.
Nokkrum misserum síðar (man ekki hvort það var ári síðar eða svo) áttum við þríeykið leið í bókabúð Þórarins Stefánssonar og sáum þar alveg dýrindis reiðhjólahjálma sem við girntumst. Úr varð að við fórum heim og óskuðum eftir fjármunum til kaupa á þessum dýrindis hjálmum sem voru nota bene skær appelsínugulir annars vegar og skær gulir hins vegar. Foreldrar okkur sáu sér ekki fært á þessari stundu að verða við þessari bón okkar. Það var bara engin ástæða til að fara að skreyta á sér hausinn.

Þessi upprifjun er í engan stað ádeila á ákvarðanir foreldra minna né bræðra. Heldur er einungis fyndið að horfa til baka og sjá hvað sumir hlutir hafa breyst.
Ég er líka sannfærður um að hægri dindlar, sem þykjast gjarnan boða eitthvað frelsi, hafi hrópað á sínum tíma að það væri bara forræðishyggja að ætlast til þess foreldrar sæju til þess að börnin þeirra notuðu hjálm við þessa iðju. Þeir eru meir að segja enn þá til svona dindlar sem halda því fram að það sé óþolandi forræðishyggja að neyða fólk til að nota bílbelti.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli