16 apríl 2007

Ég man

Ein minning sem rifjaðist allt í einu upp fyrir mér.
Á Húsavík fyrir svona 20 árum síðan c.a. vorum við strákarnir eitt sinn í afmæli hjá Ómari Özcan. Man ekki hvaða ár þetta var en þetta var í kringum forskóla aldurinn.
Ómar átti þá heima í Red house þar sem ég átti síðar eftir að búa. Fórum um kvöldið út í fótbolta á skólavellinum. Ómar á afmæli seint í nóv. þannig að það var dimmt úti og snjór. Ég get ekki sagt að ég muni mikið eftir fótboltaleiknum sem slíkum. Man ekki hverjir voru þarna og man ekki hvernig leikurinn fór. Mig grunar hins vegar að mitt lið hafi unnið!
Það sem ég man hins vegar eins og það hafi gerst í gær er að í miðjum leik heyrum við allt í einu miklar drunur. Hreinlega bara hávaða. Boltinn stoppar og við förum að líta í kringum okkur. Svo lýsist himininn allt í einu upp og yfir okkur svífur risastór eldhnöttur. Þá er ég ekkert að ýkja. Hann kom svona c.a. úr austri og fór til vesturs. Stór hnöttur með eld-hala og drunum. Ég get svo svarið það að ég var viss um að "þetta" hefði lent um það bil á Flatey í Skjálfanda.
Nú hef ég oft séð stjörnuhröp og alls konar himnahluti en ekkert hefur nokkurn tímann komist í líkingu við þetta.
Næsta verkefni er að komast að því hvaða ár þetta var og fletta síðan upp gömlum heimildum og athuga hvort þetta sé til einhverstaðar skráð.

Annað svona "speisað" atvik gerist nokkrum árum síðar. Ætli ég hafi ekki verið c.a. 10 ára plús mínus 2 ár. Um miðjan dag upp á Baughól tók ég eftir því að fólk hafði safnast saman til að horfa út í loftið. Forvitnin rak mig af stað til að kanna hvað væri að gerast. Fólkið stóð efst í Jónasartúninu (sem Tukki kallar Gunnarstún eða eitthvað álíka) og starði út yfir Kinnafjöllin fögru. Þar var eitthvað fyrirbæri á lofti sem enginn skildi. Fyrirbærið var grafkyrrt fyrir ofan fjöllin, færði sig síðan yfir bæinn og flakkaði um himininn í þó nokkurn tíma. Algjörlega var ég viss um það á þessum tíma að um "geimskip" væri að ræða. Það er allavega algjörlega ljóst að þetta var ekki eitthvað sem hægt er að útskýra sem eitthvað veðurfræðilegt fyrirbæri.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli