20 apríl 2007

Lifi einkavæðingin

Ég segi mínar farir ekki sléttar af samskiptum við Tollinn / Póstinn.
Forsaga málsins er sú að ég hreppti þann stóra 5.mars síðastliðinn. Vann uppboð á fartölvu rafhlöðu á uppboðsvefnum Ebay. Ég bauð 43$ og hreppti hnossið.
Til að fá rafhlöðuna senda frá Kína til Íslands borgaði ég síðan 15$ og heildar kostnaðurinn því 58$ eða 4002 kr þegar það var skuldfært á Visa kortið mitt. Vöruna pantaði ég að heimilisfangi mínu á stúdentagörðum.

Ég var ekki mikið að stressa mig yfir sendingunni, var alveg viðbúinn því að það tæki einhverja daga að fá þetta alla leið frá Kína. Að rúmum mánuði liðnum fór ég að velta fyrir mér hvað væri eiginlega að frétta af pakkanum. Sendi póst til seljandans sem tjáði mér að þeir hefðu póstlagt þetta 2 dögum eftir kaupin og að hann gæti ekki betur séð en að þetta hefði borist til Íslands. Sendi mér einnig sendinganúmerið. Ég hafði í kjölfarið samband við Póstinn og þá kom á daginn að böggullinn væri staddur í tollinum og búið að senda fjöldann allan af tilkynningum og ítrekunum til Húsavíkur á heimilisfangið mitt þar. Óskiljanlegt hugsaði ég. Sendi póst til baka með kvittun fyrir kaupunum þannig að hægt væri að tollafgreiða vöruna tók einnig skýrt fram að ég óskaði eftir því að þetta væri sent á Garðana þar sem ég er staddur. Alveg eins og stendur á bögglinum. Viti menn. Nokkrir dagar líða og þá er hringt í mig af pósthúsinu á Húsavík. Ég á þar böggul frá Kína!!! Það er að sjálfsögðu ekki hægt að kvarta neitt undan gellunum hjá Póstinum á Húsavík. Þær sendu mér bara pakkann og póstinn sem ég átti inni hjá þeim.

Þegar pakkinn kemur síðan í hús fæ ég það staðfest að það stendur skýrt og greinilega Eggertsgata 18.
Til að toppa þetta allt saman þurfti ég að borga VSK og einhver bölvuð gjöld af 88$ sem mér þykir óskiljanlegt. Hringdi í þjónustuverið og fékk þau svör að þetta væri sennilega innsláttarvilla. Ég má bara gjöra svo vel að fara í röðina hjá Tollinum og rífa síðan kjaft.

Alveg hreint óþolandi að þurfa að standa í svona.
Næst á dagskrá er að gera tilraun sem verður þannig að ég ætla að láta senda mér böggul að utan sem verður bara merktur Andri Valur Ívarsson - Iceland.
Fyrst það skiptir engu máli hvaða heimilisfang er sett á böggulinn þá hlýtur það að duga.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli