19 apríl 2007

Miðvikudagurinn mikli

Þessi miðvikudagur var heldur betur viðburðaríkur. Stórbruni í miðbænum sem menn eiga eftir að muna um ókomna tíð. Ég kíkti á vettvang og leyfði augunum mínum að sjá hvað væri í gangi. Ég á ekki eftir að sakna Pravda mikið, þ.e. skemmtistaðarins, húsið var þó skemmtilegt ásýndar. Hins vegar þykir mér miður að Rósenberg hafi þurft að lenda í þessu líka. Tvímælalaust besta kaffihúsið í bænum.
Síðar um kvöldið, klukkustund eftir að slökkvistarfi lauk í miðbænum, brast einhver vatnslögn á Vitastíg og brennandi heitt vatn flæddi niður Vitastígin, niður á Laugaveg og eftir Laugaveginum. Það var mjög sterkur leikur hjá Vísi.is að vera með beina útsendingu af Laugaveginum, beint úr gufustróknum.

Það sem stendur upp úr eftir daginn er fyrir það fyrsta það hetjuverk sem slökkviliðið vann á Lækjartorginu. Þeir stóðu sig hreinlega eins og hetjur.
Eins þótti mér hreint magnað að sjá Stefán Eiríksson Lögreglustjóra mæta á vettvang, bæði á Lækjartorg kl 15 í dag og eins á Laugavegi klukkan rúmlega 22 í kvöld. Hann vann sér inn kredit hjá mér. Sýndi að hann situr ekki bara inn á skrifstofu og klórar sér í hausnum.
Að lokum þá verð ég að minnast á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson Borgarstjóra með meiru. Hann var mættur með fyrstu mönnum á brunastað. Klæddi sig í eldrauðan "snjógalla" með bláan hjálm og skíðagleraugu. Gallin var allt of stór á hann og leit hann því út fyrir að vera töluvert yfir kjörþyngd. Hann var gríðarlegur pólitíkus í öllum viðtölum og byrjaði alltaf á að hrósa slökkviliðinu og lýsa því yfir hversu sorglegt þetta væri að sjá "hjarta" Reykjavíkur vera að brenna til kaldra kola. Hann má hins vegar eiga það að hann lýsti því yfir að væri stefnan að endurbyggja svæðið upp eins fljótt og auðið er. Þar losnaði um áhyggjur mínar um að þarna myndi hið snarasta rísa háhýsi sem myndi endanlega eyðileggja svæðið.

Vinsælustu setningarnar í bænum voru að:
Pravda væri heitasti staðurinn og að allir væru sótaðir á Rósenberg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli