31 maí 2007

Reykingar

Á morgun taka gildi lög um bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum. Mér þykir það bara hið allra besta mál. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig skemmtanalífið fer fram um helgina. Hvort menn virði bannið að vettugi eða hvort menn láti sig hafa það að fara út og reykja þar.
Sumum finnst það ósanngjarnt að banna eigendum þessara staða að leyfa fólki að reykja inni á staðnum. Þetta sé þeirra staður og þeir eigi að ráða hvort reykingar fari þar fram eða ekki. Eigendur staðanna þurfa nú þegar að hlíta alls konar reglum. Þeir mega ekki afgreiða nema ákveðinn hluta fólks og á ákveðnum tímum. Þeir þurfa að fylgja lögum sem varða geymslu á hráefni og svo framvegis. Frjálshyggjumönnum þykja allar þessar reglur vondar. Mér þykir það ekki. Ég myndi til að mynda ekki vilja þurfa að sitja með niðurgang í heila viku bara til að komast að því að einhver veitingastaður myndi ekki vanda geymslu á hráefni.

Þessa dagana er auglýst grimmt nýja aðferð við að hætta reykingum. Sú aðferð gengur út á að setja auka filter framan á sígarettuna sem síar út megnið af nikótíninu og öllum óæskilegu efnunum. Fyrst að fólk er á annað borð tilbúið til að eyða á þriðja hundrað þúsund á ári í reykingar af hverju ætti það ekki bara að halda áfram að reykja, nema með 90% minni óhollustu? Bara svona að pæla...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli