27 júní 2007

Heilbrigðiskerfið II

Heimilislæknar er annað fyrirbæri sem er ekki alveg að virka.
Árið 2000 fór ég nær dauða en lífi á heilsugæslu í hverfinu sem ég bjó í hér í borginni og óskaði eftir læknisaðstoð. Ritarinn spurði hvort ég væri með heimilislækni. Ég sagðist vera sveitamaður og hefði engan slíkan. "Þú þarft að fá þér einn þannig" sagði hún eins og hún væri að mæla með teflonhúðuðum potti. Ég sagðist þá bara ætla að fá einn heimilislækni sem snöggvast. Ég væri hreinlega að drepast. Þá glotti konan við tönn og sagði mér að það tæki eitt og hálft ár að fá heimilislækni !!!
Ég reiddist gríðarlega þar sem ég var sárþjáður og hellti mér yfir konuna þó án þess að fara yfir strikið. Benti henni góðfúslega á að ég yrði ekki lifandi eftir eitt og hálft ár þegar þessi blessaði heimilislæknir yrði minn (þetta var á meðan ég hafði skap. Einhverra hluta vegna hef ég það ekki lengur en það er efni í aðra færslu).
Ritarinn sá aumur á mér og "smyglaði" mér til læknis. Sagan endaði vel.
Ég hef ekki enn þá fengið mér heimilislækni. Mér skilst að biðröðin sé ekki styttri núna en hún var þá.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli