17 júlí 2007

Íslensk múgæsing

Lúkas hundurinn ljóti er fundinn. Reyndar ekki kominn í hús en hann lifir. Garðar Örn knattspyrnudómari velti því fyrir sér hvað hefði verið í töskunni fyrst hundurinn var ekki þar. Hann komst að því eftir nokkur símtöl að nýjasti diskurinn með Dúkkulísunum hefði verið í töskunni!

Múgæsing greip Íslendinga sem endrarnær. Stráklingur, sem var á Blönduósi þegar óþokkar spörkuðu í Dúkkulísudiskinn, missti vinnuna og fékk morðhótanir. Múgurinn stóð með Lúkasi.
Á síðasta ári reis múgurinn upp gegn DV, boðbera slæmra tíðinda, þegar blaðið fjallaði um einhentan kennara sem var sakaður af mörgum mönnum um kynferðisofbeldi gegn þeim.
Nokkrum mánuðum síðar stóð múgurinn með móður sem hafði birt samtal úr messenger spjalli á netinu. Spjallið var á milli hennar í dulargervi ungrar dóttur sinnar og manns sem sýndi á sér pylsuna í vefmyndavél. Ekkert varð úr því máli þegar ljóst þótti að málið væri á misskilningi byggt.

Svona mætti lengi telja. Íslenskur þjóðarsálaræsing er greinilega alveg óútreiknanleg. Og ekki gott að lenda í henni.

Nýjasta dæmið er líklega Íslensk móðir sem fær ekki að hitta barn sitt sem er hjá föður þess í Bandaríkjunum. Helmingur litninga barnsins er frá honum kominn.
Nú tek ég það skýrt fram að ég þekki málið mjög lítið. Hef séð eitthvað um þetta í fréttum eins og þið. Ég hef ekki, frekar en þið, heyrt hlið föðurins á málinu. Því sé ég mér ekki fært að taka afstöðu í málinu.
Ég er ekki nógu grunnhygginn til að álykta að Íslensk móðir eigi fullkominn rétt á að hafa barn sitt hjá sér á Íslandi. Réttur karla í forræðisdeilum er oftar en ekki fótum troðinn. Því þarf að breyta sem og öðru er viðkemur jafnrétti kynjanna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli