27 ágúst 2007

Bjarni Fel


Bjarni Fel er okkar ástsælasti íþróttaþulur. Um það verður ekki deilt.
Á sunnudaginn fór fram heil umferð í Landsbankadeild karla. Ég beilaði á Keflavík - Valur þar sem ég nennti ekki að keyra þetta einn. Fór þess í stað í Árbæ og horfði á Fylkismenn lúta í lægra gras fyrir FH.
Þegar leikurinn var að hefjast tók ég upp símann og stillti á Rás tvö til fylgjast með gangi mála í hinum leikjunum. Bjarni Fel var þar mættur og lýsti leik KR og ÍA.
Þegar hann var búinn að lýsa leiknum í c.a. 4 mínútur þagnaði kallinn allt í einu. Það heyrðist enn þá í áhorfendum og allt svoleiðis. Bara ekki í Bjarna gamla.
Ég hugsaði með mér að vonandi væri allt í lagi með kallinn. Hélt þó áfram að hlusta.
Eftir nokkrar min heyrist aftur í Bjarna. Þá var hann greinilega að tala við einhvern í síma. Símtalið var stórbrotið og ég sat og hló eins og hálviti þarna inn í miðri þvögunni á Fylkisvellinum. Ég ætla að skrifa upp samtalið svona c.a. eins og ég man það. Að sjálfsögðu heyrði ég bara í honum.

- Já halló! Það heyrist ekkert í mér...
- Þetta er Bjarni Fel !
(Greinilega að svara spurningu og mjög hneykslaður)
- Er enginn í stúdíói tvö?
- Já ég er búinn að hringja í hann. Hann svarar ekki...
- Þetta er óþolandi. Ég nenni ekki að standa í svona vitleysu. Ég er farinn heim...

Svo kom þögn. Hinn aðilinn í símtalinu hefur væntanlega sagt Bjarna að allt sem hann segði heyrðist í útvarpinu. Að alþjóð væri að hlusta á hann væla eins og fimm ára krakki sem hótar að hætta því honum líkar ekki eitthvað...

Þetta var hreinlega stórbrotið. Óþolandi samt að það skuli ekki vera hægt að hlusta á þetta á ruv.is

Engin ummæli:

Skrifa ummæli