23 ágúst 2007

Bölvað rugl

Umræðan um "ástandið" í miðborginni hefur verið hávær undanfarna daga. Mér þykir þessi umræða óskaplega leiðinlegt væl.
Borgarstjórinn hélt því fram að með því að hætta að selja kaldan bjór í ríkinu við Austurvöll yrði málið leyst. Hann hélt að rónarnir, sem drekka spritt þegar fjárhagurinn leyfir ekkert annað, myndu hætta að "ónáða fólk" í miðborginni þegar þeir fengu ekki kaldan bjór í stykkjatali.
Þessa heimskulegu hugmynd, sem er búið að framkvæma, kannast hann ekkert við í dag. Segir að sér sé alveg sama.
Það má þó ekki taka þetta alveg frá honum því Bingi var hans stoð og stytta í þessu "alvarlega" máli.
Nú er Borgar Þór Einarsson fráfarandi formaður SUS búinn að benda á orsök "vandans."
Málið er jú að það reykja allir og þar af leiðandi eru allir miklu lengur heima hjá sér á kvöldin til að geta reykt sem mest. Þessir allir drekka síðan miklu meira heima hjá sér en þeir myndu gera í miðbænum. Af því að allir drekka meira þá eru allir meira drukknir og því segir sig sjálft að fólk er ofbeldishneigðara og slæst meira. Þetta er ekkert flóknara en þetta.

Fyrir mér er þetta bara rökleysa. Frjálshyggjumaðurinn er þarna næstum því að réttlæta það að hin mikla frelsisskerðing sem felst í reykingabanninu brjótist út í formi ofbeldis í miðborginni.

Hljómar þetta ekki svipað og "rök" sumra bifhjólamanna sem sögðu að menn væru hættir að stoppa fyrir lögreglunni því sektirnar væru orðnar svo háar og að lögreglan gæti lagt hald á hjólin. Lausnin var sú að lækka sektirnar bara aftur og þá myndu menn halda áfram að keyra hratt en stoppa fyrir lögreglunni þegar þeir yrðu svo óheppnir að mælast í radar.

Hvað með aukna löggæslu í miðbænum? Hvernig væri ef lögreglan gerði eitthvað meira en að keyra niður Laugarveg einstöku sinnum? Nokkrir saman í hóp sem labba um bæinn og eru sýnilegir. Alveg er ég viss um að það væri besta lausnin á "vandanum."

Engin ummæli:

Skrifa ummæli