08 ágúst 2007

Hverjum er um að kenna?

Ótrúlegt hvað Íslendingar eru tilbúnir til að finna blóraböggla í öllum málum. Gott og vel stundum, oft, eru mál þannig að einhverjum er um að kenna. Því verður ekki neitað. Það verður þó að taka mið af aðstæðum. Það þýðir ekki bara að hrópa alltaf þegar eitthvað gerist. Kenna þeim um sem liggur best við höggi.

Fyrir þá sem ekki átta sig á hvert ég er að fara, þá hafa verið umræður víða á netinu um banaslys sem varð á suðurlandinu á mánudaginn.
Í grófum dráttum var maður að keyra bíl þegar lögreglan hugðist stöðva hann og athuga með bílstjórann. Eins og lögreglan gerir gjarnan, sérstaklega um svona helgar eins og þá síðustu. Ökumaðurinn var ekki á því að stöðva. Gefur í og stingur lögregluna af. Skömmu síðar kemur lögreglan að bílnum þar sem hann hafði farið út af og velt og bílstjórinn kastast út og var látinn þegar að var komið.

Umræðurnar hafa snúist um störf lögreglunnar. Margir hafa tekið svo djúpt í árina að segja að það sé lögreglunni að kenna hvernig fór. Hún æsti bílstjórann upp með því að elta hann.

Ég skil ekki þessa nálgun á málið. Meir að segja er ég langt frá því að skilja hana.
Maðurinn tók þá ákvörðun að gefa í og reyna að stinga lögregluna af. Maðurinn tók einnig þá ákvörðun (eða tók ekki þá ákvörðun) að nota bílbelti. Atburðurinn endaði eins og fyrr segir.

Eins og ávalt er þetta mjög sorglegt þegar svona hlutir gerast. Mér þykir eins miður þegar fólk tekur þátt í svona múgæsing og fer að hrópa og kalla.

Vissulega er eitt og annað sem má gagnrýna við störf lögreglunnar. Eins og öll önnur störf. Þegar það eitt, að þeir eru að sinna starfinu sínu, veldur því að fólk nánast kallar þá morðingja þykir mér botninum vera náð.

Vilja menn meina að lögreglan eigi að sleppa fólki sem vill ekki stöðva? Er það gott fordæmi að menn viti að ef þeir gefi inn í staðinn fyrir að slá af þá sé þeim borgið?
Myndi ekki einhver segja eitthvað ef lögreglan væri á hælunum á einhverjum, myndi hætt að elta hann og sá hinn sami myndi valda slysi og jafnvel dauða skömmu síðar?

Það er greinilega ekki vandlifað að vera vörður laganna.

Fjölskyldu hins látna votta ég samúð mína. Það gæti litið út við fyrsta lestur að ég væri að gagnrýna hinn látna eitthvað sérstaklega. Svo er ekki. Ég er einfaldlega að gagnrýna viðbrögð fólks sem upphrópar lögregluna fyrir mistök annarra.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli