11 september 2007

Apótek

Ég fékk uppáskrift hjá lækni í vor upp á nefúða gegn króníska nefrennslinu mínu. Ég fór samviskusamlega í Lyfju og greiddi þar morðfjár fyrir tvær flöskur. Gallinn var sá að það var bara ein flaska eftir af nefúðanum, því fékk ég inneignarnótu fyrir hinni.
Síðan leið sumarið og ég sprautaði reglulega í nefið á mér án þess að finna mun (sem er kannski út af því að ég er með svo mikið nefrennsli á morgnanna að nefúðinn skilar sér jafn óðum).

Um daginn mundi ég eftir þessari inneignarnótu og ákvað að leysa lyfið út.
Þá kom á daginn að það stendur með litlu letri (alveg nógu stóru samt, hljómar bara betur svona) að maður eigi að nálgast inneignarlyf innan mánaðar. Þá hófst mikið ævintýri.

Ég gat ekki mótmælt því að það væri meira en mánuður síðan ég var þarna síðast en reyndi þó að malda í móinn. Þá sagði afgreiðslustúlkan mér að fólk kæmi nú vanalega innan mánaðar að sækja lyfin sín. Ég svaraði á móti að lyfin væru vanalega til þegar ég færi í apótek.

Því næst spyr ég hvað sé næsta skref. Hún segir að það sé ekkert næsta skref, ég hafi fyrirgert rétti mínum með þessu slóri.
Með það sama vippaði ég mér í reiða karakterinn sem lætur ekki vaða yfir sig. Tjáði stúlkunni að ég vildi þá fá endurgreitt. Hún var sko alls ekki viss um að það væri hægt.
Ég sagði að þetta væri ekki flókið mál. Ég hefði borgað fyrir vöruna og annað hvort myndi ég fá þennan nefúða og málið væri dautt eða þá að ég fengi hann endurgreiddan. Ekkert flóknara en það, hélt ég.
Stúlkan gafst upp og sótti lyfjafræðing. Hann fékk að heyra það sama. Ég vildi fá endurgreitt. Þá kom á daginn að þetta væri ekki alveg svo einfalt. Ég þyrfti jafn vel að borga honum fyrir að fá þetta endurgreitt !!!

Jú viti menn það er nefnilega ódýrara að fá þrjár flöskur af úðanum en tvær (sem er mjög eðlilegt!). Þegar maður kaupir þrjár flöskur tekur Tryggingastofnun svo mikinn þátt í kostnaðinum að maður borgar minna en þegar lyfseðillinn hljómar upp á tvær flöskur.
Þar sem sauðnautið læknirinn hafði ekki áhuga á að spara mér pening skrifaði hann upp á tvær flöskur sem þýddi að ég fékk endurgreitt. Samt fékk ég ekki nema svona einn fjórða af því sem ég borgaði fyrir tvær flöskur. Var þó nánast sáttur fyrir að þurfa ekki að borga með "inneignarnótunni."

Niðurstaðan er því þessi. Lyfjafyrirtækin eru ein stór glæpastarfsemi sem ég set í sama flokk og nasista og Tamíl tígra. Læknir sem skrifar upp á tvö glös af úðanum er sauðnaut. Annað hvort af því að hann veit ekki að það er ódýrara að fá þrjú glös eða þá að hann er ekki að hugsa um hag sjúklingsins. Síðast en ekki síst ef það er ódýrara að fá meira af einhverju lyfi en minna, þá er eitthvað að hjá hinu opinbera. Það hlýtur að vera ljóst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli